Mótmælin í Hvíta-Rússlandi halda áfram um allt landið eftir umdeildan kosningasigur forsetans Alexanders Lukashenko um helgina. Telja mótmælendur að brögð hafi verið í tafli og flest vestræn ríki hafa lýst yfir efasemdum um úrslitin þar sem Lukashenko á að hafa fengið rúmlega 80 prósent atkvæða.

Meðal nýrra tíðinda úr mótmælunum er að starfsmenn nokkurra verksmiðja í landinu hafa lagt niður störf til að lýsa yfir stuðningi við mótmælendurna. En þeir telja að mótframbjóðandinn Sviatlana Tsikhanouskaya hafi í raun borið sigur úr býtum. Sem dæmi má nefna að starfsemi liggur niðri í verksmiðjunni sem hefur framleitt BelAZ-vörubíla og vinnuvélar síðan á tímum Sovétríkjanna.

Þá hafa hundruð hvítklæddra kvenna staðið í röðum og haldið á hvítum blómum í höfuðborginni Minsk. Kalla þær þetta samstöðukeðjur og krefjast þess að mótmælendum verði sleppt úr varðhaldi og að deilan verði leidd til lykta á friðsaman hátt.

Tveir mótmælendur hafa nú látið lífið í þeirri ólgu sem nú kraumar í landinu. Á mánudag lést maður í Minsk og sýnir myndband að lögreglan skaut á hann. Lögreglan heldur því hins vegar fram að hann hafi haldið á sprengju. Annar maður, Alexander Vikhor, lést í varðhaldi í borginni Gomel eftir að hann var handtekinn á sunnudag þegar mótmælin hófust.

Hreint helvíti

Samkvæmt yfirvöldum í landinu hafa 6.700 manns verið handtekin og hundruð hafa særst í átökum við lögregluna. Einhverjum var sleppt úr varðhaldi á fimmtudagsmorgun. Eru þetta langstærstu mótmæli sem orðið hafa í Hvíta-Rússlandi í valdatíð Lukashenko sem spannar rúmlega aldarfjórðung.

Einn af þeim sem losnað hafa úr varðhaldi er Nikita Telizhenko, rússneskur blaðamaður hjá fréttasíðunni Znak. Hann lýsti þriggja daga dvöl sinni í fangelsi sem hreinu helvíti. Svo þröngt væri í klefunum að mótmælendurnir þyrftu að sofa í hrúgu á gólfinu, hverjir ofan á öðrum. Blóð og saur væri úti um allt enda fengju þeir ekki aðhlynningu eftir ofbeldi lögreglunnar og ekki einu sinni að fara á klósett. Sumir væru alvarlega slasaðir en lögreglumenn hefðu gengið á milli og barið og sparkað í þá.

Lögreglan hefur ekki aðeins handtekið þá sem tekið hafa þátt mótmælunum heldur farið inn á heimili fólks og sótt það. Bandarísk kona lýsir því að hvítrússneskur kærasti hennar hafi verið handtekinn um miðja nótt þar sem þau sváfu og hún hafi enga hugmynd um af hverju.

Vilja miðla málum

Leiðtogar Póllands, Lettlands og Litháens hafa boðist til að miðla málum milli stjórnar Lukashenko og mótmælendanna og hótað þvingunum af hálfu Evrópusambandsins verði því boði ekki tekið. Utanríkisstofnun Evrópusambandsins hefur einnig ályktað að ofbeldið verði að stöðva og umbætur að ganga í gegn, ellegar verði að endurskoða sambandið við Hvíta-Rússland og koma þvingunum á.

Lukashenko lætur hins vegar engan bilbug á sér finna og er jafn harðorður og fyrr. Á ríkisstjórnarfundi á miðvikudag talaði hann um „svokallaða mótmælendur“ sem væru hópur af fólki ýmist á sakaskrá og eða atvinnulaust.