Bæjar­stjóri Grinda­víkur, Fannar Jónas­son, hyggst efna til í­búa­kosningar um val á nafni á nýja hrauninu sem er að myndast í Geldinga­dal. Hann telur ekki ó­lík­legt að nafn hraunsins verði kennt við dalinn sjálfan og þó hann vilji ekki nefna mögu­leg nöfn enn þarf ekki mikla stærð­fræði­getu til að leggja saman tvo og tvo hér. Meðal mögu­legra nafna hljóta að vera Geldinga­hraun og Geldinga­dals­hraun. Hvort nafnið Litla-Hraun nái inn í í­búa­kosninguna sem val­mögu­leiki verður að koma í ljós, en orð­heppnir hafa stungið upp á því nafni vegna smæðar gossins.

Á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna um eld­gosið við Fagra­dals­fjall í dag var spurt út í hvert nafn nýja hraunsins yrði. Magnús Tumi Guð­munds­son, jarð­eðlis­fræðingur við Há­skóla Ís­lands, sagði þá að honum þætti réttast að Grind­víkingar fengju að velja nafn á nýja hraunið.

Magnús Tumi Guð­­munds­­son stakk upp á því í dag að Grind­víkingar fengju að velja nafn hraunsins sjálfir. Það á ein­mitt að koma í hlut sveitar­fé­lagsins að leggja fram til­lögu að nafni til ráð­herra og Grinda­víkur­bær ætlar að halda í­búa­kosningu.
Mynd/Almannavarnir

Þegar Holuhraun varð Holuhraun ári síðar


Fæstum sem Frétta­blaðið ræddi við um nafn­giftir nýrra náttúru­fyrir­brigða var þá kunnugt um ná­kvæm­lega hvernig þær færu fram. Flestir virðast þeirrar skoðunar að nöfnin komi til af sjálfum sér, svo að segja, í dag­legri um­ræðu vísinda­manna um fyrir­brigðin og í um­fjöllun fjöl­miðla.

Með að­stoð formanns ör­nefna­nefndar, Bergs Þor­geirs­sonar, komst Frétta­blaðið þó að því að það kemur í hlut sveitar­stjórna að á­kveða nöfn nýrra náttúru­fyrir­brigða. Þetta kom skemmti­lega fram árið 2015 þegar sveitar­stjórn Skútu­staða­hrepps til­kynnti al­menningi um það að Holu­hraun skyldi á­fram ganga undir nafninu Holu­hraun, rúmu ári eftir að hraunið myndaðist. Þá þegar hafði verið talað um hraunið undir þessu nafni frá því að gosið hófst.

Grinda­víkur­bær ætlar þó ekki að vera eins seinn á sér og Skútustaðahreppur. Fannar Jónas­son bæjar­stjóri segist ætla að grípa tæki­færið núna strax og efna til í­búa­kosningar á næstu dögum meðal Grind­víkinga um val á nafni nýja hraunsins.

Sveitarstjórn, örnefnanefnd og ráðherra


Um mögu­leg nöfn segir hann: „Ég býst nú við að flestir vilji kenna þetta við Geldinga­dal vegna þess að þetta er al­gjör­lega eins­korðað við þann dal. Það er senni­lega það sem flestum dettur í hug sem fyrsta nafn en svo kunna ein­hverjir aðrir, sem eru nú kannski stað­kunnir á þessum slóðum, að leggja eitt­hvað annað til.“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Mynd/Grindavíkurbær

Þegar sveitar­stjórnin hefur síðan á­kveðið nafnið, í þessu til­viki eftir í­búa­kosningu að sögn Fannars, verður ör­nefna­nefnd að skila inn á­liti um nýja nafnið. „Það er hlut­verk nefndarinnar að gefa sitt álit á þeim kostum eða kosti sem sveitar­stjórnin leggur fram. Hvort að sveitar­stjórnin taki svo mark á á­litinu er al­gjör­lega undir henni komið,“ segir for­maður nefndarinnar Bergur Þor­geirs­son við Frétta­blaðið.

Hann nefnir síðan að endan­leg stað­festing nafnsins verði að koma frá ráð­herra, eftir að sveitar­stjórn hefur lagt það til að lokinni um­sögn ör­nefna­nefndar. Ferlið er þannig, eins og svo margt annað í stjórn­sýslunni, kannski ör­lítið lengra en menn myndu vilja.

Ráð­herrann sem hefur úr­slita­á­kvæði í málinu er mennta- og menningar­mála­ráð­herra. Lilja Al­freðs­dóttir gegnir nú því em­bætti. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir hún ekki annað koma til greina en að stað­festa það nafn sem í­búar Grinda­víkur velja hrauninu. „Að sjálf­sögðu geri ég það. Og eftir allt sem í­búar þarna hafa þurft að þola síðustu vikur finnst mér frá­bært að heyra að þeir fái að minnsta kosti að velja nafnið,“ segir Lilja.

Lilja segir útilokað að hún muni hafna því nafni sem Grindavíkurbær leggur til.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson