Uppsögn Ólafar Helgu Adolfsdóttur, hlaðkonu hjá Icelandair, er siðlaust níðingsverk. Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsmála hjá Eflingu.

Ólöfu var sagt upp þrátt fyrir að hún og stéttarfélag hennar telji uppsögnina kolólöglega. Efling segir engan vafa leika á að hún hafi gegnt trúnaðarmennsku og verið að vinna að réttindum samstarfsmanna þegar henni var sagt upp. Efling boðar lögsókn ef uppsögn Ólafar verður ekki dregin til baka.

„Þetta er ekki aðeins ólöglegt heldur líka algjörlega siðlaust níðingsverk,“ segir Viðar Þorsteinsson hjá Eflingu.

Spurður um rökstuðning svo stórra orða, svarar hann að Ólöf sé heiðvirð manneskja sem njóti trausts og stuðnings vinnufélaga. Þegar Icelandair hafi reynt að réttlæta uppsögn hennar hafi félagið borið á Ólöfu þungar og tilhæfulausar sakir.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsmála hjá Eflingu
Fréttablaðið/Ernir

Viðar gagnrýnir ekki bara Icelandair harðlega heldur sé þáttur Samtaka atvinnulífsins mjög alvarlegur í máli Ólafar.

Samtökin virðist hreinn gerandi í málinu með fundasetum og samþykki uppsagnarinnar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA hafi sagt þvert nei þegar Efling óskaði eftir fundi vegna málsins.

Fréttablaðið hefur ítrekað reynt að fá viðbrögð Samtaka atvinnulífsins vegna málsins en án árangurs. Þá hefur Icelandair lítið annað látið hafa eftir sér en að félagið harmi að mál Ólafar sé komið í fjölmiðla. Vafi leiki á að hún hafi verið trúnaðarmaður þegar henni var sagt upp.