Stjórn Eflingar hefur lýst yfir vantrausti á ríkissáttasemjara í tilkynningu sem birtist á vefsíðu félagsins nú í kvöld. Í tilkynningu Eflingar segir stjórn félagsins að ríkissáttasemjari hafi sýnt algjöra vanrækslu á því að hafa röksemdir samninganefndar Eflingar til hliðsjónar þegar hann lagði fram miðlunartillögu sýna fyrr í dag.

Með miðlunartillögunni eigi að „þröngva kjarasamningi Starfsgreinasambandsins og SA upp á félagsfólk Eflingar, þrátt fyrir að samninganefnd Eflingar hafi ítrekað komið því með málefnalegum hætti á framfæri að sá samningur mætir ekki þörfum félagsfólks og tekur ekki tillit til aðstæðna þeirra.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hefur einnig dregið lögmæti miðlunartillögu ríkissáttasemjara í efa. Ríkissáttasemjari hefur vísað þeim fullyrðingum á bug í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag og segir hann að miðlunartillaga sé eitt þeirra úrræða sem ríkissáttasemjara standa til boða til að freista þess að tryggja frið á vinnumarkaði

Hættulegt fordæmi

Drífa Snædal, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands sagði á Facebook síðu sinni að hún telji ríkissáttasemjara setja stórhættulegt fordæmi fyrir deilur á íslenskum með ákvörðun sinni. Slíkri ákvörðun verði ekki aftur snúið og sé hún tekin er víst að hún verði ítrekað notuð í framtíðinni. Hann sé með tillögunni að teygja valdheimildir sínar verulega og í raun að fara út fyrir þær.

Drífa segir telur að ríkissáttasemjari hafi mögulega ekki hugsað málið til enda „Hætt er við að deilan fari í enn meiri hnút og traust til embættis ríkissáttasemjara minnki hjá launafólki á Íslandi. Það er hins vegar mín skoðun að félagar í Eflingu hefðu átt að fá að greiða atkvæði um það tilboð sem lá á borðinu en það á að gerast á félagslegum grunni en ekki með valdboði ríkissáttasemjara,“ skrifar Drífa á Facebook.

Miðstjórn ASÍ fundaði um miðlunartillögu ríkissáttasemjara fyrr í dag. Ekki náðist í Kristján Þórð Snæ­bjarn­ar­son, for­seta ASÍ við vinnslu fréttarinnar.