Fram­kvæmda­stjóri Eflingar, Viðar Þor­steins­son, segir að þrátt fyrir yfir­lýsingu Sam­taka at­vinnu­lífsins um að boðuð verk­föll nái ein­göngu til þeirra bíl­stjóra sem eigi aðild að þeim stéttar­fé­lögum sem hafi boðað til verk­falla þá standi Efling við sína þröngu túlkun og að hóp­bif­reiða­stjórar sem starfi innan þeirra fé­lags­svæðið eigi að vera skráðir í Eflingu. Hann segir þetta ekki í fyrsta sinn sem Efling og SA séu ósammála um túlkun vinnulöggjafarinnar. 

Í bréfi sem Sól­veig Anna Jóns­dóttir, for­maður Eflingar, sendi á for­svars­menn hóp­bif­reiða­fyrir­tækja fyrr í dag stendur að sam­kvæmt samningum Eflingar og SA skuli allir hóp­bif­reiða­stjórar sem hafi starfs­stöð á fé­lags­svæði Eflingar vera í fé­laginu og að þeir skuli fylgja öllum lög­lega teknum á­kvörðunum sem fé­lagið tekur, svo sem um verk­föll. 

Í yfir­lýsingu sinni segir SA full­yrðingu Sól­veigar Önnu í bréfinu um að verk­fall nái „jafn­framt til starfs­manna í öðrum stéttar­fé­lögum eða jafn­vel þeirra sem ekki eiga aðild að stéttar­fé­lögum“ eiga sér enga stoð. Í til­kynningu SA segir að það sé stjórnar­skrár­varinn réttur ein­stak­linga að standa utan stéttar­fé­laga og að þeir starfs­menn sem ekki eigi aðild að Eflingu skuli sinna sína störfum „ eins og ekkert hafi í skorist.“ 

Viðar segir Eflingu þó túlka lögin þannig að þeir sem starfi sem hóp­bif­reiða­stjórar og starfi hjá fyrir­tækjum sem eru með starfs­stöð á fé­lags­svæði Eflingar, eigi að vera í Eflingu. 

„Það liggur fyrir að allir þeir sem starfa sem hóp­bif­reiða­stjórar sem starfa hjá fyrir­tækjum sem eru með starfs­stöð á okkar fé­lags­svæði eiga að vera í Eflingu, enda erum við eina stéttar­fé­lagið sem erum með gildan kjara­samning á þessu svæði fyrir hóp­bif­reiða­stjóra,“ segir Viðar í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ekki óalgengt að fólk sé ranglega skráð í stéttarfélag

Viðar segir að Efling túlki það sem svo að þeir ein­staklingar sem ættu að vera í Eflingu ættu að sama skapi að virða verk­falls­boðun Eflingar.

„Alveg á sama hátt og þeir ein­staklingar eiga að vera í Eflingu og greiða til Eflingar, enda erum við sá aðili sem að stendur vörð um þeirra kjör, þá beri þeim að virða lög­lega tekna á­kvörðun þessa stéttar­fé­lags um verk­falls­að­gerðir,“ segir Viðar. 

Viðar segir það ekki ó­al­gengt að fólk sé rang­lega skráð í stéttar­fé­lag og fyrir því geti verið ýmsar á­stæður. 

„Hvort sem það er vegna þess að það veit ekki betur eða að at­vinnu­rekandinn hefur stuðlað að því eða eitt­hvað slíkt. En í grunn­at­riðum er það svona. Það erum við sem erum að semja um starfs­kjör allra þeirra sem vinna við þessi til­teknu störf hér á þessu svæði og þar af leiðandi förum við fram á að verk­falls­boðunin sé virt hjá öllum þeim sem vinni þessi störf,“ segir Viðar.

For­svars­menn ein­hverra hóp­bif­reiða­fyrir­tækja hafa gefið út að bíl­stjórar sem standi utan Eflingar muni aka á föstu­dag, þrátt fyrir verk­falls­að­gerðirnar. Viðar segir að hann vonist þó til þess að bíl­stjórar muni standa saman á föstu­daginn.

Sjá einnig: Bíl­stjórar utan stéttar­fé­laga munu aka - þvert á full­yrðingar Eflingar

„Við köllum eftir því að allir bíl­stjórar standi saman að því að verja sín kjör óháð því í hvaða fé­lagi þeir eru,“ segir Viðar og bætir við að þetta sé flókið mál sem ef­laust verði ekki út­kljáð strax. 

„En þetta er okkar af­staða og það sem við höfum að leiðar­ljósi í okkar verk­falls­vörslu,“ segir Viðar að lokum.