Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sent frá sér tilkynningu fyrir hönd félagsins vegna þriggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur yfir stéttarfélaginu. Þar er bent á að í öllum málunum hafi dómurinn hafnað langstærstum hluta krafa sem fyrrverandi starfsmenn lögðu fram.

Efling þarf að greiða fyrrverandi starfsmönnum sínum samtals tæpar þrjár milljónir í miskabætur vegna aðgerða og orða sem fylgdu uppsögnum þeirra 2019 og 2020. Kröfur starfsmannanna þriggja hljóðuðu samtals upp á um 66 milljónir.

Sólveig segir Eflingu nú skoða hvort félagið ætli að áfrýja dómunum eða hvort þau ætli ekki að taka málið lengra þar sem stærstum hluta krafnanna var hafnað.

Félagið telji þau sjónarmið sem lögð séu til grundvallar í málunum varðandi miskabætur ekki rétt að öllu leyti, og þykir til að mynda sérstakt að í einu málinu sé látið sem Efling beri ábyrgð á umfjöllun ótengds aðila í fjölmiðlum.

„Í dómunum þremur var staðfest að uppsagnir þeirra starfsmanna sem gerðu kröfur á hendur Eflingu voru lögmætar, enda voru uppsagnirnar í samræmi við viðeigandi kjara- og ráðningarsamninga. Þetta þýðir að tugmilljón króna kröfum þeirra á hendur Eflingu var hafnað og staðfesta dómarnir þannig jafnframt að Eflingu bar á engan hátt að verða við slíkum kröfum.“ segir í tilkynningunni.

Þar er jafnframt bent á að dómurinn hafi ekki fallist á að stjórnendur Eflingar hefðu gerst sekir um einelti í garð starfsmannanna.

„Í málunum voru einnig gerðar kröfur um greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 5.000.000 í hverju máli fyrir sig. Fallist var á að Efling skyldi greiða lítið brot af þeirri fjárhæð í hverju máli. Rökstuðningur í dómunum fyrir því er byggður á mismunandi og matskenndum sjónarmiðum í hverju máli fyrir sig og atvikum í hverju máli. Í því sambandi ber að taka fram að niðurstaða um miskabætur byggist ekki á því að Efling hafi brotið gegn réttindum starfsmanna á neinn hátt, heldur er staðfest að gætt var að ákvæðum kjara- og ráðningarsamninga við uppsagnirnar.“ segir Sólveig.