Í yfirlýsingu sem stéttarfélagið Efling sendi frá sér rétt í þessu kemur fram að Efling hafni tillögunni um að semja um sömu launatöflu og aðildarsambönd Starfsgreinasambandsins, SGS, var búin að samþykkja í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Þess í stað fer Efling fram á að sérstaða meðlima Eflingar í ljósi annarrar samsetningar starfa og annars starfsaldursmynsturs, sem og vegna hærri framfærslukostnaðar á höfuðborgarsvæðinu, verði að fullu virt.

Samtök atvinnulífsins gerðu Eflingu tilboð síðastliðinn miðvikudag eftir langar og strangar samningaviðræður og fékk Efling vikufrest til að íhuga stöðu sína gegn því að hann yrði afturvirkur til 11 .nóvember.

Samkvæmt Eflingu er ámælisverður málflutningur í greinargerðinni með tilboði Samtaka atvinnulífsins til Eflingar sem nauðsynlegt var að gera athugasemd við.

Þar væri dregin fram villandi mynd af launa- og kaupmáttaþróun út frá SGS samningnum og horft fram hjá því að sú launatafla myndi skila stórum hluta Eflingarfólks minni kjarabótum en landsbyggðarfélögum.

Þar að auki sé það fullyrt að það sé ómálefnalegt að það sé verulegur framfærslukostnaður á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð.