Magdalena Kwiatkowska, verkefnastjóri fræðslumála hjá Eflingu segir í kvöldfréttumStöðvar 2 að félagið muni greiða ættingjum þeirra sem fórust og þeim sem slösuðust í brunanum á Bræðraborgarstíg dánar- og slysabætur.

Par sem lést í brunanum voru félagsmenn Eflingar. Þá er einn félagsmaður á gjörgæslu og einn á spítala.

Hún segir að félagið hafi tekið virkan þátt í að aðstoða ættingja þeirra sem létust í eldsvoðanum og að þau eigi rétt á dánarbótum, bótum úr sjúkrasjóði og sjúkradagpeningum. Verið er að vinna í málinu og Efling er búið að hafa samband við aðstandendur fólksins.


Magdalena segir að einnig sé búið að aðstoða þá sem bjuggu í húsinu og þeir komnir með nýtt heimili. Þá sé Efling að aðstoða fólkið við að leita réttar síns, útvega þeim lögfræðiaðstoð til að þau geti sótt um skaðabætur. Alls voru 73 einstaklingar skráðir með lögheimili í húsinu.

Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg 1. Fólkið sem lést voru pólskir ríkisborgarar á þrítugs- og fertugsaldri sem störfuðu hér á landi.