Stéttarfélagið Efling hefur ákveðið að skjóta kröfu sinni um ógildingu miðlunartillögu ríkissáttasemjara til almennra dómstóla. Það gera þau eftir að félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur ekki brugðist við stjórnsýsluákæru þeirra vegna málsins.
Í tilkynningu frá félaginu að stefnan verði lögð fyrir héraðsdóm í dag og að óskað verði eftir flýtimeðferð.
„Við höfum sagt frá byrjun að miðlunartillaga ríkissáttasemjara er lögleysa og markleysa. Embættið hefur misnotað valdheimildir sínar til að taka afstöðu með sjónarmiðum annars aðilans í kjaradeilu og reyni að svipta hinn aðilann, sem í þessu tilviki er tekjulægsta verkafólk landsins, sjálfstæðum samningsrétti sínum. Við eigum heimtingu á að dómstólar fjalli um þetta framferði,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar í tilkynningunni en félagið hefur frá upphafi hafnað lögmæti tillögu ríkissáttasemjara.
Ríkissáttasemjari hefur einmitt stefnt félaginu fyrir héraðsdóm vegna þess að þau hafa neitað að afhenda félagatal sitt svo hægt sé að framkvæma atkvæðagreiðslu um tillöguna. Fyrirtaka og munnlegur málflutningur er í því máli á morgun í héraðsdómi Reykjavíkur. Seinni partinn á morgun verður einnig tekið fyrir í Félagsdómi mál Samtaka atvinnulífsins gegn Eflingu en samtökin segja boðaðar verkfallsaðgerðir félagsins á Íslandshótelum ólögmætar. Verkföllin voru samþykkt fyrr í vikunni og eiga að hefjast á þriðjudag í næstu viku.