Efling hefur ekki enn skilað ríkissáttasemjara félagaskrá sinni sem samkvæmt vinnulöggjöf þau eiga að afhenda embættinu svo hægt sé að greiða atkvæði um miðlunartillögu sem hann lagði fram í gær. Efling lýsti yfir vantrausti á ríkissáttasemjara í gærkvöldi og miðstjórn ASÍ hvatti hann til að draga miðlunartillögu sína til baka.

Efling fékk frest til að skila tillögunni til klukkan 16 í gær og svo aftur til klukkan 20. Að sögn Aðalsteins Leifssona hafði hann ekki fengið tillöguna þegar blaðamaður náði tali af honum um klukkan 10.20.

Hann hafði þó átt í samskiptum við Sólveigu Önnu sem hann segir ekki hafa viljað afhenda félagaskránna.

Spurður hver hans næstu skref eru segir hann að hann sé að skoða hver þau séu.

„Vinnulöggjöfin er alveg skýr með það að þegar miðlunartillaga hefur verið lögð fram þá skal fara fram kosning um hana meðal allra sem til heyra viðkomandi kjarasamningi og með því að neita að afhenda kjörskránna stendur Efling í vegi fyrir því að félagsfólk geti kosið um hana,“ segir hann.

„Við höfum margítrekað beiðni um að fá skránna og hún hefur svarað þeim neitandi.“

Í yfirlýsingu frá Eflingu kom fram í morgun að félagið telji ríkissáttasemjara ekki hafa lagaheimild til þess að halda atkvæðagreiðsluna og að þar af leiðandi ætli Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ekki að verða að beiðni embættisins um afhendingu félagatals stéttarfélagsins.

„Hvorki liggur þannig fyrir að beiðnin sé sett fram af lögmætu tilefni né að fullnægjandi lagaheimild standi til hennar.“