Samninga­nefnd Eflingar telur yfir­lýsingar borgarinnar og Dags B. Eggerts­sonar í fjöl­miðlum gefa til kynna að borgin sé til­búin til þess að koma betur til móts við Eflingar­fé­laga en kynnt hefur verið á undan­gengnum samninga­fundum. Nefn­din býður því til við­ræðna á for­sendum yfir­lýsinganna, að því er segir í til­kynningu frá Eflingu.

Áður hafði enginn nýr fundur verið boðaður í kjara­deilunni. Borgar­­stjóri hafði fyrir helgi sagt til­­­boð borgarinnar marka tíma­­mót en hann hefur verið sakaður um flótta af for­svars­­mönnum verka­­lýðs­­fé­lagsins.

Í til­kynningu Eflingar segir að for­svars­menn fé­lagsins hafi áður bent á ó­sam­ræmi milli til­boðs borgarinnar og þess sem komið hafi fram í fjöl­miðlum.

„Í ljósi þess að engir fyrir­varar eða leið­réttingar hafa komið fram frá borginni síðan þá lítur samninga­nefnd Eflingar svo á að sú út­gáfa til­boðs sem kynnt var í fjöl­miðlum sé raun­veru­legt samnings­út­spil fremur en til­raun til að fegra það sem kynnt var á samninga­fundi,“ segir orð­rétt í til­kynningunni.

Megin­at­riði málsins sé til hve margra starfs­heita og starfs­manna á leik­skólum borgarinnar til­boð borgarinnar nái og hvort það sé skil­yrt af því að notast við hand­stýrða endur­skil­greiningu starfs­mats á ein­stökum störfum eða ekki.

„Ég get ekki neitað því að við höfum klórað okkur tals­vert í kollinum yfir fram­setningu borgarinnar í fjöl­miðlum á til­boði hennar í kjöl­far samninga­fundarins síðasta mið­viku­dag,“ er haft eftir Sól­veig Önnu Jóns­dóttur, for­manni Eflingar í til­kynningunni.

„Lands­menn sem fylgdust með fjöl­miðlum hafa væntan­lega skilið þetta sem til­boð um minnst 110 þúsund skil­yrðis­lausa hækkun grunn­launa Eflingar­fé­laga sem eru í al­mennum ó­fag­lærðum störfum á leik­skólum. Þetta er ekki í sam­ræmi við það sem var kynnt fyrir okkur í her­berginu.“

Hún segir að Eflingar­fólk kjósi að trúa því að hér sé ekki um að ræða markaðs­mennsku né fegrunar­að­gerðir, heldur nýtt og endur­bætt út­spil af hálfu borgarinnar sem Efling er til­búin að líta já­kvæðum augum.

„Ef það er réttur skilningur hjá okkur þá teljum við það mikil­vægt skref í rétta átt. Við bjóðum borginni að stað­festa sam­eigin­legan skilning á þessu og hefja við okkur við­ræður á þeim grunni, þar sem jafn­framt verði viður­kennt að slíkar hækkanir þurfi einnig að ná til sögu­lega van­metinna kvenna­starfa utan leik­skólanna, eins og við höfum alltaf krafist,“ segir Sól­veig Anna.

Til­kynning Eflingar nú hefur verið send Degi B. og Hörpu Ólafs­dóttur, for­manni samninga­nefndar Reykja­víkur­borgar.