Samninganefnd Eflingar mun ekki eiga fleiri fundi með samninganefnd Reykjavíkurborgar nema þá fundi sem krafist er af Ríkissáttasemjara. Í bréfi sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi á Dag B. Eggertsson borgarstjóra segir að ástæðan sé trúnaðarbrot samninganefndar borgarinnar. Um sé að ræða brot sem varðar sektum og skaðabótum.

Brotið meinta er frétt Spegilsins á Rás 1 síðastliðinn föstudag þar sem segir að Efling fari fram á desem­beruppbót upp á tæpar 400 þúsund krónur ásamt launahækkunum sem gangi mun lengra en samið var um í lífskjarasamningunum í fyrra.

Út þessa viku stendur yfir atkvæðagreiðsla innan Eflingar um verkföll rúmlega 1.800 starfsmanna stéttarfélagsins hjá borginni. Ótímabundið verkfall mun svo taka við eftir 17. febrúar ef ekki tekst að semja.

Telur Sólveig Anna skynsamlegt að samningaviðræður fari hér eftir fram fyrir opnum tjöldum og með beinni aðkomu borgarstjóra. Hefur hann verið boðaður á opinn fund á morgun í Iðnó. Er einnig farið fram á að Dagur axli pólitíska ábyrgð á framgöngu samninganefndarinnar.

„Við erum hér. Við erum á leiðinni í verkfall. Við munum berjast þangað til við höfum verið viðurkennd og okkur tryggt mannsæmandi viðurværi,“ segir Sólveig Anna. „Borgin er í okkar höndum!“

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, kannast ekki við að upplýsingum hafi verið lekið í Spegilinn.

„Kröfur Eflingar má lesa á vefsíðu þeirra. Ég veit ekki í hvaða heimildarmann er verið að vísa, sá gæti hafa lesið þessar kröfur á heimasíðu þeirra,“ segir hún.

Harpa, sem gegndi starfi forstöðumanns kjaramálasviðs Eflingar í 15 ár, var ekki búin að lesa bréfið þegar Fréttablaðið hafði samband við hana. Hún segir hins vegar auðvelt fyrir hvern sem er að reikna út krónutölur úr kröfum Eflingar.

„Mér þykir leitt að umræðan sé komin á þetta stig. Ég bíð bara við símann eftir að Ríkissáttasemjari boði til fundar,“ segir Harpa. „Við vinnum eftir skýrum leikreglum. Við erum á fullu að hitta viðsemjendur og Efling er bara einn af þeim.“