Engin aðgerðaáætlun er til í skólum landsins til að bregðast við óvæntri vá svo sem hryðjuverki í grunnskólum.

Umræða er í gangi varðandi hvort herða þurfi öryggisvarnir með hagsmuni skólabarna í huga. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir mikilvægt að börn verði gripin sem fyrst ef þau finna til vanlíðunar sem geti brotist út í ofbeldi.

Öryggi barna í grunn- og framhaldsskólum landsins kom ítrekað upp í ræðu sem Ásmundur Einar flutti á fundi í gær þar sem kynnt var breyting á menntastefnu.

Fjórtán ára börn voru gripin með eggvopn um helgina eftir að hafa veist að fólki.

Á sama tíma sitja tveir menn í gæsluvarðhaldi vegna gruns um ætlað hryðjuverk.

„Við fengum í síðustu viku gögn frá Embætti landlæknis um að Íslendingar hafi aldrei verið eins óhamingjusamir,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

„Við þurfum að taka það alvarlega.“

Heiða segir umræðu í gangi um hvort skólar landsins þurfi að taka upp viðbragðsáætlun gegn hryðjuverkum að hætti nágrannalanda.

„Við höfum ekki hugsað áætlanir gegn hryðjuverkum með sama hætti og við erum með virka viðbragðs­áætlun gegn jarðskjálftum svo eitt dæmi sé nefnt.“

Ásmundur Einar segir að Íslendingar sem þjóð verði að skoða hvaða breytingar séu að verða á samfélagi okkar sem ýti undir ofbeldi. Um það hvort efla þurfi öryggisvarnir í skólum segir ráðherra það til skoðunar, en betra væri að grípa börnin áður en kemur í óefni.

„Hvers vegna brýst vanlíðan út í þessum efnum?

Sumir hafa talað um aukna netnotkun, aðrir nefna að við höfum fjarlægst hvert annað sem einstaklingar. Kannski erum við komin of langt hvert frá öðru, kannski erum við komin of langt frá því að vera mannelsk,“ segir Ásmundur sem kynnti róttækar umbætur á menntastefnu og breytingar innan veggja skólanna í gær.

Menntamálastofnun verður lögð niður og hefur Þórdís Jóna Sigurðardóttir verið skipuð forstjóri til að vinna þá vinnu og leiða samhliða nýja stofnun til starfa.

Örlög starfsmanna Menntamálastofnunar eru óljós en þeim verður öllum sagt upp. „Það er metið þannig að þetta sé besta leiðin,“ segir Þórdís Jóna.

Með boðaðri breytingu ráðherra á menntastefnunni er boðuð ný hugsun og ný nálgun að sögn ráðherra. „Nú er umræðan ekki lengur um menntun fyrir alla heldur hvernig við bætum menntun og skólastarf.“

Fréttablaðið spurði Ásmund Einar hvort honum sviði sá ójöfnuður sem væri að finna innan veggja skólanna.

„Mér finnst við geta gert miklu, miklu betur. Ef mér fyndist það ekki værum við ekki að fylgja þessu svona fast eftir,“ svarar ráðherra.

Hann segir boðaðar breytingar gerðar til að grípa einstaklinga og aðstoða þá sem þurfa á hjálp að halda fyrr með þrepaskiptingu.

Í dag verður fundur þar sem fulltrúar nemenda, skólastjórnendur, kynjasérfræðingar, lögregla og fleiri koma saman vegna viðbragðsáætlunar framhaldsskóla um ofbeldi og einelti.