„Það sem skiptir máli er að við erum að efla rannsóknir, þróun og nýsköpun með auknum fjármunum og nýjum verkefnum. Svo skiptir líka máli hvernig við nýtum vísindin í opinberri stefnumótun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Ríkisstjórnin kynnti í gær áherslur sínar í nýsköpun og vísindum. Verja á milljarði króna fram til ársins 2023 í gegnum sérstaka Mark­áætlun um samfélagslegar áskoranir. Lögð verður sérstök áhersla á loftslagsbreytingar og sjálfbærni, heilbrigðisvísindi og fjórðu iðnbyltinguna.

„Í aðdraganda þessarar nýju markáætlunar fórum við í töluvert mikið samráð við ýmsa aðila. Það eru þessar þrjár áskoranir sem standa upp úr, hvort sem þú spyrð almenning, fræðasamfélagið eða aðra. Þetta eru stóru áskoranirnar fram undan sem þarf að setja aukið púður í,“ segir Katrín.

Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2024 nemi fjárfestingar til rannsókna og þróunar þremur prósentum af landsframleiðslu. Hlutfallið nam 2,02 prósentum árið 2018 og hafði þá lækkað milli ára. Katrín segir að enn sé stefnt að því að ná þriggja prósenta markinu.

örfundur061.jpg

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á fundinum í gær.

„En þetta snýst ekki bara um opinber framlög heldur líka framlög einkageirans. Þess vegna erum við með þessa blönduðu aðferðafræði. Við erum að styðja grunnrannsóknirnar sem er auðvitað mjög mikið opinbert fjármagn.“

Stjórnvöld séu líka með auknum stuðningi að reyna að gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að vaxa frá því að vera sprotar og fullvaxta fyrirtæki.

„Við höfum líka séð það í gegnum þennan faraldur hversu miklu það skiptir að eiga öflugt rannsókna- og vísindafólk. Þarna vorum við að takast á við eitthvað sem í rauninni allar þjóðir stóðu frammi fyrir og það var ekki hægt að flytja inn einhver svör.“

Í gær var líka kynnt 27 liða aðgerðaáætlun verkefnisstjórnar vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Voru þær tillögur unnar í framhaldi af skýrslu nefndar um málið sem skilað var fyrir rúmu ári.

„Þessi aðgerðaáætlun er svona praktískur leiðarvísir um hvað stjórnvöld og samfélagið þurfa að ráðast í á næstu misserum. Þar er kannski lykilþáttur að við þurfum að þjálfa samfélagið til að takast á við þessar breytingar,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður verkefnisstjórnarinnar.

Það þurfi að hjálpa fólki að öðlast ákveðna færni í að nota þessa nýju tækni til að það geti sjálft búið sér til verðmæti svo störf séu ekki í hættu.

Varðandi erfiða stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19 faraldursins segist Huginn auðvitað vonast til þess að hagkerfið taki aftur við sér og búi til störf á ný.

„En mikilvæg viðbót inn í aðgerðaáætlunina er auðvitað að stjórnvöld eiga líka að geta hjálpað fólki að öðlast færni miðað við þá tækni sem er að fara að taka yfir á vinnumarkaði. Við eigum núna að geta nýtt þessa stöðu sem upp er komin til að þess að gera ákveðnar breytingar og hraða því að stjórnvöld innleiði þær.“