„Já, þau virðast ótrúlega óheppin í innkaupum, íslensku olíufélögin, þau virðast bara fylla á tankana hjá sér þegar allt er í hæstu prísum, gleyma alveg þegar heimsmarkaðsverð hríðfellur að bregðast við,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Olíuverð féll verulega í síðustu viku án þess að íslenskir neytendur hafi notið þess. Verðið á bensínlítra er í flestum tilvikum enn yfir 350 krónur.
„Því miður er þetta gömul saga og ný,“ segir Breki.Hann segir að óheppni fyrirtækjanna nái einnig til banka og matvörukeðja. Þannig séu íslensku bankarnir fljótir að hækka vexti þegar Seðlabankinn gefur þann tón en fari sér að engu óðslega í vaxtalækkunum þegar Seðlabankinn tekur slík skref.
„Þegar Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli fyrir rúmum tveimur árum biðu bankarnir í hálft ár og þurfti skammir úr Svörtuloftum til að þeir hreyfðu sig.“
Þá segir Breki um hækkun vöruverðs undanfarið að þar sé nú enn ein óheppnin í rekstri Haga. Félagið hafi á sama tíma og matvara hækkar dag frá degi þurft að birta jákvæða viðvörun til Kauphallarinnar um að hagnaður yrði enn meiri en búist hafði verið við.
„Fákeppnin sem hér er veldur því að það er enn mikilvægara en ella að fyrirtækin hafi siðferðiskompásinn í lagi,“ segir Breki.