„Já, þau virðast ó­trú­lega ó­heppin í inn­kaupum, ís­lensku olíu­fé­lögin, þau virðast bara fylla á tankana hjá sér þegar allt er í hæstu prísum, gleyma alveg þegar heims­markaðs­verð hríð­fellur að bregðast við,“ segir Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna.

Olíu­verð féll veru­lega í síðustu viku án þess að ís­lenskir neyt­endur hafi notið þess. Verðið á bensín­lítra er í flestum til­vikum enn yfir 350 krónur.

„Því miður er þetta gömul saga og ný,“ segir Breki.Hann segir að ó­heppni fyrir­tækjanna nái einnig til banka og mat­vöru­keðja. Þannig séu ís­lensku bankarnir fljótir að hækka vexti þegar Seðla­bankinn gefur þann tón en fari sér að engu óðs­lega í vaxta­lækkunum þegar Seðla­bankinn tekur slík skref.

„Þegar Seðla­bankinn hóf vaxta­lækkunar­ferli fyrir rúmum tveimur árum biðu bankarnir í hálft ár og þurfti skammir úr Svörtu­loftum til að þeir hreyfðu sig.“

Þá segir Breki um hækkun vöru­verðs undan­farið að þar sé nú enn ein ó­heppnin í rekstri Haga. Fé­lagið hafi á sama tíma og mat­vara hækkar dag frá degi þurft að birta já­kvæða við­vörun til Kaup­hallarinnar um að hagnaður yrði enn meiri en búist hafði verið við.

„Fá­keppnin sem hér er veldur því að það er enn mikil­vægara en ella að fyrir­tækin hafi sið­ferðis­kompásinn í lagi,“ segir Breki.