Íslendingar greiddu að meðaltali 878 milljónir króna í sérstakt komugjald til sérfræðilækna síðastliðin þrjú ár og 780 milljónir að meðaltali til sjúkraþjálfara.

Þetta kemur fram í skýrslu Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ, þar sem segir að innheimta sérstaks komugjalds sé mótleikur sérfræðilækna og sjúkraþjálfara við óbættum vaxandi rekstrarkostnaði.

ÖBÍ spyr hvort þetta sérstaka gjald sé löglegt, í ljósi þess að það er líkara sértækum veltuskatti.

Niðurstaðan fáist aðeins fyrir dómstólum.

Síðan sérfræðilæknar og sjúkraþjálfarar sögðu upp samningum við Sjúkratryggingar Íslands hafa þeir innheimt komugjöld milliliðalaust af sjúklingum til að dekka það sem þeim finnst upp á vanta.