Banda­rískir vísinda­menn eru efins um heil­næm á­hrif lýsis og gefa niður­stöður rann­sókna á á­hrifum þess æ flóknari svör, að því er fram kemur í um­fjöllun banda­ríska vef­tíma­ritsins At­lantic.

Miðillinn rekur í grófum dráttum sögu vísinda­legra rann­sókna á heil­næmum á­hrifum lýsis. Árið 1971 hafi danskir vísinda­menn í Græn­landi komist á þá niður­stöðu að lág tíðni sykur­sýkis og hjarta­sjúk­dóma mætti rekja til mikillar inn­töku heima­manna á lýsi.

Allar götur síðan hafi verið litið svo á að lýsi væri í raun allra meina bót, gæti komið í veg fyrir elli­glöp, þung­lyndi, of­fitu og jafn­vel krabba­mein. Innan tíðar hafi sala á lýsi orðið að tug­milljarða iðnaði á heims­vísu, sem heldur á­fram að stækka.

Segir í grein The At­lantic að þegar raun­veru­legar vísinda­rann­sóknir hafi hinsvegar verið gerðar á heilnæmum áhrifum lýsis, hafi niður­stöðurnar reynst mis­vísandi. „Tug­þúsundum rann­sóknum síðar hafa hlutirnir ekkert skýrst: Við erum einskis vísari um það hvað lýsi getur gert og hvað ekki,“ segir blaðamaður The Atlantic.

Sér­fræðingar séu sam­mála um að lýsi geti haft vissa kosti í vissum að­stæðum. Sýnt hafi verið fram á að Omega-3 fitu­sýrur geti haft í för með sér minnkað magn af fitu í líkamanum sem tengist hjarta­sjúk­dómum, geti minnkað líkur á ó­tíma­bærri fæðingu og geti haft já­kvæð á­hrif á ung­barna­blöndu. Það sé hins­vegar langt frá þeim meintu mögnuðu áhrifum á heilsu sem flestir tengi við lýsi.

Þá lætur The At­lantic þess getið að mögu­lega tengist þeir kostir minna lýsisinn­töku og frekar því að þeir sem borði meiri fisk séu lík­legri til að borða minna eða ekkert af ham­borgurum og svína­kjöti. Hin meintu áhrif geti þess vegna tengst matar­æði fólks en alls ekki inntöku á lýsi.

Vísindamenn segja sömuleiðis þvert á móti ekki heldur loku fyrir það skotið að þessi meintu áhrif lýsis á heilsu tengist alls ekki matar­æði. Hugsanlega hafi fólk sem borði fisk einfaldlega meira á milli handanna og sé því þess vegna heil­brigðara, án þess að það hafi nokkuð með áhrif lýsis að gera.

„Við höfum vitað í mörg ár að lýsis­bæti­efni hafa bók­staf­lega enga kosti í för með sér fyrir heil­brigða meðal­manneskju,“ hefur miðillinn eftir Pieter Cohen, prófessor við lækna­deild Harvard há­skóla.

Það stöðvi þó engan af þeim milljónum sem taki lýsi á hverjum degi. „Fólk bara elskar að taka bæti­efni,“ hefur The At­lantic eftir Clif­ford Rosen, prófessor við lækna­deild Tufts há­skóla. „Þetta er eins og trúar­brögð.“

Grein The At­lantic í heild sinni.