„Ef við látum þetta yfir okkur og aðra ganga erum við drasl,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona og fjölmiðlakona, í pistli á Facebook-síðu sinni.
Pistill Ólínu hefur vakið talsverða athygli en í honum skrifar hún um málefni Eflingar sem hafa verið í deiglunni undanfarnar vikur. Hún segir að verkfall Eflingar komi okkur öllum við því öll séum við Efling þó við þráumst til að halda öðru fram.
„Efling háir sína baráttu nú fyrir allt launafólk í landinu, alla sem á vinnumarkaði eru, en það er rétturinn til samningagerða,verkfallsrétturinn og rétturinn til veita stéttarfélagi umboð til að vinna að bættum kjörum,“ segir Steinunn Ólína sem bendir á að Úkraína sem dæmi hái nú baráttu fyrir lýðræði í allri Evrópu en ekki bara fyrir Úkraínu.
Hún kveðst furða sig á því þegar fátækt fólk innan Eflingar sem starfar við hreingerningar fær þann mótbyr sem raun ber vitni. Veltir hún fyrir sér hvers vegna allir, sér í lagi konur, hafi ekki slegið slegið skjaldborg um eina lægst launuðu stétt landsins, ræstingafólk.
„Þetta kemur okkur öllum alveg stórkostlega mikið við! Ég vil benda kynsystrum mínum sem kjósa að þegja eða halda að þetta komi þeim ekkert við á, að píkan nýtur nú loksins meiri verndar, skilnings og opinbers stuðnings en sjálft frelsið til að standa vörð um hagsmuni fólks á vinnumarkaði, svo ef gætum við litið af henni blessaðri um stundarkorn og opnað allavega annað augað um aðalatriði!“
Steinunn Ólína bendir á að formæður okkar hafi ekki farið í frí þó það héti Kvennafrí árið 1975.
„Þær unnu þvert á móti markvisst að markmiðum sínum með það að leiðarljósi að samfélag er aðeins hægt að kalla samfélag ef láglaunafólk getur framfleytt sér. Og Eflingarfólk sem boðar nú verkfall hjá Íslandshótelum getur það ekki! Það lifir ekki af laununum sínum þrátt fyrir að stunda erfiðisvinnu! Ef við látum þetta yfir okkur og aðra ganga erum við drasl. Þá erum við engu betri en það fólk sem græðir með áfergju á því að launapína aðra og þá er okkur sama þótt við þiggjum og framseljum þjónustu af fólki sem á ekki í sig og á. Og hvernig manneskjur erum við þá? Drasl.“
Pistil Steinunnar Ólínu má lesa í heild sinni í færslu hennar hér að neðan.