Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78, segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, fyrsta þingmanninn til að tala með opinberum hætti gegn réttindum hinsegin fólks sem hún muni eftir í langan tíma.
Tilefnið er ræða Sigmundar Davíðs á Alþingi frá því í gærkvöldi þar sem hann fór hörðum orðum um frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði. Sagði Sigmundur þar um að ræða „óhugnalegasta þingmál“ sem hann man eftir frá seinni tíð.
Frumvarpið, sem var lagt fram í ríkisstjórn síðasta þriðjudag og birtist á þingmálaskrá sem þingmenn fengu í dag, var unnið á tillögum starfshóps um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Í skýrslu hópsins kemur fram að með því að grípa inn í líkamlega friðhelgi þessara barna með ónauðsynlegum aðgerðum sé brotið á rétti þeirra til heilsu.
Sigmundur sagði í gær að umrætt frumvarp sé „aðför að framförum og vísindum.“ Hann segir að með því sé verið að banna foreldrum og læknum að nýta sér nútímalækningar. Þannig sé það aðför að frelsi foreldra, heilbrigðisstarfsólki og réttindum barna.
Algjör öfugmæli
Í samtali við Fréttablaðið segir Þorbjörg að Sigmundur snúi málinu á hvolf með fullyrðingum sínum frá því í gærkvöldi. Hún bendir á að Ísland hafi í gær skrifað undir áskorun til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um að gæta réttinda Intersex fólks.
„Hann er að tala algjörlega á skjön við stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks. Það er allt í lagi að vera í stjórnarandstöðu og vera á móti stefnu ríkisstjórnarinnar en ég held að þetta sé í fyrsta skiptið, allavega sem ég man eftir, sem að þingmaður hreinlega talar gegn réttindum hinsegin fólks,“ segir Þorbjörg.
Hún gefur lítið fyrir fullyrðingar Sigmundar um að vegið sé að frelsi foreldra með frumvarpinu. „Þetta eru mestu öfugmæli sem ég hef heyrt. Hann vill sumsé að áfram verði framkvæmdar ónauðsynlegar skurðaðgerðir á börnum sem sjálf hafa ekkert um það að segja,“ segir Þorbjörg. Hún bendir á að réttindi Intersex barna hafi hingað til ekki verið pólitískt mál.
„Ég held að þetta sé bara algjört sjálfsmark. Það er fólk með allskonar pólitískar skoðanir sem er fylgjandi því að Intersex börnum eða börnum með ódæmigerð kyneinkenni sé tryggð vernd í lögum,“ segir Þorbjörg.
Aðspurð að því hvort Samtökin '78 muni beita sér frekar vegna ummæla Sigmundar segir Þorbjörg að það verði skoðað. Samtökin séu boðin og búin til þess að ræða frumvarpið sjálft og greina Sigmundi og Miðflokksmönnum frá efnislegu innihaldi þess. Hún segir frumvarpið vel unnið.
„Þetta frumvarp er afrakstur mjög langrar vinnu og vinnu þar sem læknar hafa meðal annars setið við borðið. Þannig það er ekki þannig að þetta sé illa ígrundað frumvarp, þvert á móti. Þetta hefur verið unnið mjög vel þannig að þessi gagnrýni er bara algjörlega úr lausu lofti gripin hjá honum,“ segir Þorbjörg.
Viðbúin bakslagi
Umræða um réttindi hinsegin samfélagsins hefur farið nokkuð víða að undanförnu. Nýverið upplýsti Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78 Fréttablaðið um að samtökin þurfi æ oftar að bregðast við röddum einstaklinga sem mæla fyrir því að hinsegin samfélagið snúi baki sínu við transfólki.
Aðspurð að því hvort merkja megi einhverskonar bakslag í umræðunni um réttindi hinsegin samfélagsins og hvort ræða Sigmundar sé dæmi þess efnis, segist Þorbjörg telja að svo geti vel verið.
„Maður getur auðvitað sett það í þannig samhengi. Miðflokkurinn hefur áður verið að spyrja áleitinna spurninga sem hafa engan annan tilgang en að búa til efa, um til dæmis gildi laga um kynrænt sjálfræði. Í aðdraganda þeirrar atkvæðagreiðslu spurðu Miðflokksmennirnir mikið um það hvað þetta þýði fyrir íþróttir, hvað þetta þýði fyrir hitt og þetta og það voru allt spurningar sem var svarað í greinargerð þess frumvarps, sem þau sátu svo hjá við afgreiðslu,“ segir Þorbjörg.
„Þannig já þetta er alveg hluti af kannski stærra dæmi og Miðflokkurinn virðist vera að færa sig inn á þetta svið. Hann gerði það í gær og þetta var bara mjög skýrt,“ segir hún. „Og það er bara þannig að ef að þú ræðst á eitt okkar þá ræðust á öll okkar. Við erum sameinaður frontur og munum standa með trans-og intersex fólki fram í hið óendanlega.“
„En ég held að það sé rétt hjá þér að það er ákveðið bakslag og það er ekkert óviðbúið að það verði. Við vitum það bara af reynslu annars staðar frá að þegar fólk af jaðrinum fær einhverjar réttarbætur í gegn og sýnileiki þeirra eykst, að þá kemur upp þetta bakslag, eða varnarviðbragð hjá ákveðnum hópum fólks.
Og það er bara okkar hlutverk að láta það ekki ná yfirhöndinni. Og ég hef fulla trú á því að þetta sé algjör minnihlutaskoðun og að hlutfall þeirra sem deila skoðunum Sigmundar Davíðs á trans-og intersex málum sé ekki að aukast.“