Maður hlaut á dögunum fjögurra mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir brot gegn valdstjórninni. Maðurinn var ákærður fyrir tvo brot, annars vegar hótanir í garð konu sem hafði kært kynferðisbrot, og hins vegar í garð tveggja lögregluþjóna.

„Drullastu til að taka kæruna til baka sem þú ertað fara að ræna gamlan mann sem á varla til hnífs og skeiðar þótt að hann hafi gripið þig á viðkvæmum stað þá held ég að þér verði ekki meint af því enn annars bara gerir þú sem samviskan þín segir og eitthvað sem segir mér að þú sert bara að ná þér í ís í monny en eitt skal ég segja þér og það er að ég og mínir félagar sem eru nú flestir búnir að sitja í fangelsi fyrir morð og ýmislegt ljótt við vitum hver þú ert og við vitum líka um hestana þína svo þú ættir að hugsa þig aðeins um hvað þú ert að gera gömlum manni“ eru skilaboðin sem maðurinn var dæmdur fyrir að senda konunni.

Konan, sem var nítján ára þegar hún fékk skilaboðin send árið 2020, hefði kært annan mann fyrir kynferðisbrot. Í kjölfarið hafi hún fengið umrædd skilaboð send frá manninum, sem er á sextugsaldri, á Messenger. Hún kvaðst ekki þekkja hann.

Sagðist vera á gráu svæði

Maðurinn játaði að hafa sent umrædd skilaboð því hann taldi stöðu vinar síns, sem var kærður fyrir kynferðisbrot, vera auma og vildi fá konuna til að falla frá kærunni.

Þó vildi meina að ekki væri um hótun að ræða. Í skýrslu hjá lögreglu hélt hann því fram að hann hafi passað sig að hóta engu, heldur að vera eins nálægt gráu svæði og hann komst. Hann sagðist ekki hafa í hyggju að vera í frekara sambandi við konuna, og í raun ekkert vita um hana. Þá sagðist hann hafa sagst vita af hestunum hennar því hann hafði séð myndir af hestum á Facebook-síðu hennar.

Konan kvaðst hafa orðið mjög hrædd og fengið kvíðakast þegar hún fékk skilaboðin, sem hún upplifði sem hótun. Þá sagðist hún hafa íhugað að breyta framburði sínum. Kærasti hennar var vitni í málinu, og hann sagði að eftir að hún fékk skilaboðin hafi hún verið skjálfandi og átt erfitt með öndun og varla getað talað.

Að mati dómsins þotti þó augljóst að ætlunin með skilaboðunum væri að hræða stúlkuna og hafa áhrif á framburð hennar í kynferðisbrotamálinu.

„Þú ert fokking dauður“

Þá var maðurinn ákærður fyrir að hóta tveimur lögregluþjónum líkamsmeiðingum og lífláti.

„Ég skal lemja þig,“ og „næst þegar ég sé þig [...] ertu fokking dauður, þú ert fokking dauður,“ eru það sem hann á að hafa sagt við annan lögreglumanninn. Og þá hafi sagt við lögregluþjónana báða, sem voru við skyldustörf: „ef þið farið ekki að verða rólegir þá drep ég ykkur,“

Maðurinn játaði sök í því máli, og var það metin sem nægileg sönnun fyrir brotum hans. Líkt og áður segir hlaut hann fjögurra mánaða fangelsisdóm, og þá er honum gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, sem eru 558.000 krónur.