Stacey Plaskett, ein af full­trúa­deildar­þing­mönnunum sem fara fyrir málinu gegn Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, segir ljóst að Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildarinnar, hafi verið í lífs­hættu þegar stuðnings­menn Trumps brutust inn í þing­húsið þann 6. janúar síðast­liðinn en ó­eirðar­seggirnir leituðu mark­visst að Pelosi.

„Við vitum það frá ó­eirðar­seggjunum sjálfum að ef þeir hefðu fundið Pelosi, hefðu þeir drepið hana,“ sagði Plaskett þegar annar dagur réttar­haldanna gegn Trump innan öldunga­deildarinnar fóru fram í gær en Trump er á­kærður til em­bættis­missis til að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar.

Al­ríkis­lög­regla Banda­ríkjanna hefur síðast­liðnar vikur unnið að því að bera kennsl á þá sem ruddust inn í þing­húsið en múgurinn fór meðal annars inn á skrif­stofu Pelosi. Að sögn Plaskett kallaði múgurinn nafn Pelosi á göngum þing­hússins en henni var komið út áður en þau náðu til hennar.

Vildu hengja Pence

Þá leitaði múgurinn mark­visst að Mike Pence, þá­verandi vara­for­seta Banda­ríkjanna, sem var fluttur í skjól fljót­lega eftir að brotist var inn. Plaskett greindi frá því að múgurinn hafi komist veru­lega ná­lægt Pence en þau heyrðust kalla „hengjum Mike Pence.“

Lög­reglu­maðurinn Eu­gene Goodman náði að draga múginn að sér og frá þing­sal öldunga­deildarinnar þannig hægt var að flytja Pence í burtu. Að sögn Plaskett var múgurinn að­eins nokkrum metrum frá Pence meðan á rýmingu stóð og hefði því málið getað endað veru­lega illa.

Múgurinn aðeins nokkrum metrum frá þingmönnum

Þing­mennirnir sem fara fyrir málinu sýndu í gær áður ó­birt mynd­efni úr öryggis­mynda­vélum frá ó­eirðunum og sýndi það hversu ná­lægt þing­mönnunum múgurinn var, en báðar deildir þingsins voru komnar saman þann dag til að stað­festa úr­slit for­seta­kosninganna sem fóru fram í nóvember.

Í einu slíku mynd­bandi sjást starfs­menn Pelosi forða sér inn á skrif­stofu þegar múgurinn var við það að komast inn í bygginguna og einungis nokkrum mínútum síðar sást aðili brjóta upp hurðina að skrif­stofunni. Starfs­mennirnir höfðu þá komið sér fyrir í innra her­bergi skrif­stofunnar þar sem þau lokuðu sig af.

Þá sýnir annað mynd­band hvernig lög­reglu­maðurinn Eu­gene Goodman náði að forða Mitt Rom­n­ey, öldunga­deildar­þing­manni Repúblikana, af göngum þing­hússins skömmu áður en múgurinn kom. Leið­togi Demó­krata innan öldunga­deildarinnar, Chuck Schumer, sást sömu­leiðis flýja annars staðar í húsinu.

Eini forsetinn sem hefur tvisvar verið ákærður

Fimm manns létust í ó­eirðunum þann 6. janúar, þar af einn lög­reglu­maður, og voru tals­verðar skemmdir unnar á þing­húsinu. Þing­mennirnir komu aftur saman um kvöldið og kláruðu þar að stað­festa úr­slit kosninganna. Margir kölluðu eftir því í kjöl­farið að Trump yrði vikið úr em­bætti.

Full­trúa­deild Banda­ríkja­þings á­kærði Trump form­lega til em­bættis­missis þann 13. janúar, eftir að Pence neitaði að beita 25. við­auka banda­rísku stjórnar­skránar og víkja Trump þar með úr em­bætti. Á­kæran var síðan send til öldunga­deildarinnar þann 25. janúar en málið hófst á þriðju­daginn.

Trump er fyrsti for­seti sögunnar til að vera á­kærður til em­bættis­missis tvisvar, og er þetta sömu­leiðis í fyrsta sinn sem réttað er yfir al­mennum borgara en Trump lét af em­bætti þann 20. janúar. Verði hann sak­felldur mun hann ekki geta gegnt opin­beru em­bætti í fram­tíðinni.

Það er þó ó­lík­legt að það gangi eftir þar sem flestir þing­menn Repúblikana standa enn með Trump en að­eins sex þing­menn Repúblikana gengu til liðs við Demó­krata þegar kosið var um það á þriðju­daginn hvort málið væri í sam­ræmi við stjórnar­skrána. Tveir þriðju þing­manna þurfa að sam­þykkja á­kæruna til að Trump verði sak­felldur og því þyrftu 11 þing­menn til við­bótar að ganga til liðs við Demó­krata.

Koma aftur saman í dag

Öldunga­deildin mun aftur koma saman í dag fyrir réttar­höldin en þeir sem fara fyrir málinu halda því fram að Trump hafi einn borið á­byrgð á ó­eirðunum þar sem hann hvatti stuðnings­menn sína til að arka að þing­húsinu og mót­mæla. Þá verður því haldið fram að ó­eirðirnar hafi verið í marga mánuði í upp­siglingu, eftir að Trump hélt því fram að kosninga­svindl hafi átt sér stað í nóvember.

Lög­menn Trumps munu aftur á móti halda því fram að það sé ekki í takt við stjórnar­skrána að á­kæra fyrr­verandi for­seta og að Trump hafi ekki borið beina á­byrgð á að­gerðum stuðnings­manna sinna. Sjálfur vildi Trump að teymi hans ein­blíndi á hið meinta kosninga­svindl en á það var ekki fallist.

Báðar hliðar hafa hvor um sig 16 klukkustundir til málflutnings og er mögulegt að málinu ljúki fljótlega.