Stacey Plaskett, ein af fulltrúadeildarþingmönnunum sem fara fyrir málinu gegn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, segir ljóst að Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, hafi verið í lífshættu þegar stuðningsmenn Trumps brutust inn í þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn en óeirðarseggirnir leituðu markvisst að Pelosi.
„Við vitum það frá óeirðarseggjunum sjálfum að ef þeir hefðu fundið Pelosi, hefðu þeir drepið hana,“ sagði Plaskett þegar annar dagur réttarhaldanna gegn Trump innan öldungadeildarinnar fóru fram í gær en Trump er ákærður til embættismissis til að hvetja til uppreisnar í tengslum við óeirðirnar.
Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur síðastliðnar vikur unnið að því að bera kennsl á þá sem ruddust inn í þinghúsið en múgurinn fór meðal annars inn á skrifstofu Pelosi. Að sögn Plaskett kallaði múgurinn nafn Pelosi á göngum þinghússins en henni var komið út áður en þau náðu til hennar.
Vildu hengja Pence
Þá leitaði múgurinn markvisst að Mike Pence, þáverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem var fluttur í skjól fljótlega eftir að brotist var inn. Plaskett greindi frá því að múgurinn hafi komist verulega nálægt Pence en þau heyrðust kalla „hengjum Mike Pence.“
Del. Plaskett: Pelosi and Pence "were put in danger because Pres. Trump put his own desires, his own need for power, over his duty to the Constitution and our democratic process. Pres. Trump put a target on their backs, and his mob broke into the Capitol to hunt them down."
— Kyle Griffin (@kylegriffin1) February 10, 2021
Lögreglumaðurinn Eugene Goodman náði að draga múginn að sér og frá þingsal öldungadeildarinnar þannig hægt var að flytja Pence í burtu. Að sögn Plaskett var múgurinn aðeins nokkrum metrum frá Pence meðan á rýmingu stóð og hefði því málið getað endað verulega illa.
Múgurinn aðeins nokkrum metrum frá þingmönnum
Þingmennirnir sem fara fyrir málinu sýndu í gær áður óbirt myndefni úr öryggismyndavélum frá óeirðunum og sýndi það hversu nálægt þingmönnunum múgurinn var, en báðar deildir þingsins voru komnar saman þann dag til að staðfesta úrslit forsetakosninganna sem fóru fram í nóvember.
Í einu slíku myndbandi sjást starfsmenn Pelosi forða sér inn á skrifstofu þegar múgurinn var við það að komast inn í bygginguna og einungis nokkrum mínútum síðar sást aðili brjóta upp hurðina að skrifstofunni. Starfsmennirnir höfðu þá komið sér fyrir í innra herbergi skrifstofunnar þar sem þau lokuðu sig af.
Þá sýnir annað myndband hvernig lögreglumaðurinn Eugene Goodman náði að forða Mitt Romney, öldungadeildarþingmanni Repúblikana, af göngum þinghússins skömmu áður en múgurinn kom. Leiðtogi Demókrata innan öldungadeildarinnar, Chuck Schumer, sást sömuleiðis flýja annars staðar í húsinu.
Officer Eugene Goodman watches newly released video footage of the Jan. 6 attack during the Trump impeachment trial.
— NBC News (@NBCNews) February 10, 2021
House managers presented a new video of Goodman directing Sen. Romney to turn around and run away from rioters.
📷 Brandon Bell / Pool via Getty pic.twitter.com/bGKhBaNUeV
Eini forsetinn sem hefur tvisvar verið ákærður
Fimm manns létust í óeirðunum þann 6. janúar, þar af einn lögreglumaður, og voru talsverðar skemmdir unnar á þinghúsinu. Þingmennirnir komu aftur saman um kvöldið og kláruðu þar að staðfesta úrslit kosninganna. Margir kölluðu eftir því í kjölfarið að Trump yrði vikið úr embætti.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ákærði Trump formlega til embættismissis þann 13. janúar, eftir að Pence neitaði að beita 25. viðauka bandarísku stjórnarskránar og víkja Trump þar með úr embætti. Ákæran var síðan send til öldungadeildarinnar þann 25. janúar en málið hófst á þriðjudaginn.
Trump er fyrsti forseti sögunnar til að vera ákærður til embættismissis tvisvar, og er þetta sömuleiðis í fyrsta sinn sem réttað er yfir almennum borgara en Trump lét af embætti þann 20. janúar. Verði hann sakfelldur mun hann ekki geta gegnt opinberu embætti í framtíðinni.
Það er þó ólíklegt að það gangi eftir þar sem flestir þingmenn Repúblikana standa enn með Trump en aðeins sex þingmenn Repúblikana gengu til liðs við Demókrata þegar kosið var um það á þriðjudaginn hvort málið væri í samræmi við stjórnarskrána. Tveir þriðju þingmanna þurfa að samþykkja ákæruna til að Trump verði sakfelldur og því þyrftu 11 þingmenn til viðbótar að ganga til liðs við Demókrata.
Koma aftur saman í dag
Öldungadeildin mun aftur koma saman í dag fyrir réttarhöldin en þeir sem fara fyrir málinu halda því fram að Trump hafi einn borið ábyrgð á óeirðunum þar sem hann hvatti stuðningsmenn sína til að arka að þinghúsinu og mótmæla. Þá verður því haldið fram að óeirðirnar hafi verið í marga mánuði í uppsiglingu, eftir að Trump hélt því fram að kosningasvindl hafi átt sér stað í nóvember.
Lögmenn Trumps munu aftur á móti halda því fram að það sé ekki í takt við stjórnarskrána að ákæra fyrrverandi forseta og að Trump hafi ekki borið beina ábyrgð á aðgerðum stuðningsmanna sinna. Sjálfur vildi Trump að teymi hans einblíndi á hið meinta kosningasvindl en á það var ekki fallist.
Báðar hliðar hafa hvor um sig 16 klukkustundir til málflutnings og er mögulegt að málinu ljúki fljótlega.
New security footage presented during former President Donald Trump's impeachment trial showed even more heroics from Capitol Police Officer Eugene Goodman, including potentially saving Sen. Mitt Romney from the violent mob that breached the US Capitol https://t.co/yj397g2ylo
— CNN (@CNN) February 11, 2021