Daníel Annisius, formaður stjórnar Húsavíkurstofu, segir gríðarlega mikla stemmingu vera meðal bæjarbúa á Húsavík fyrir Óskarsverðlaunahátíðinni í kvöld þar sem lagið Húsavík er tilnefnt til verðlauna.
Daníel sat heima með konunni sinni á Húsavík þegar blaðamaður hafði samband að bíða eftir því að Óskarsverðlaunahátíðin væri að byrja.
„Ég tók aðeins rúnt áðan, kíkti á rauða dregilinn, fór í búð og keypti snakk og svona. Það var agalega mikið af fólki og spenningur í bæjarbúum. Þetta er svona eins og á Eurovision kvöldi nema þetta er Óskarsverðlaunahátíðin,“ segir Daníel.
„Ef það væri ekki covid þá væri risapartý hérna og allt að gerast. En mér skilst á fólki að það ætlar að vera í litlum hópum heima hér og þar.“
Myndband við lagið sem var tekið upp á Húsavík verður sýnt á hátíðinni í kvöld og segir Daníel að stúlknakórinn frá Húsavík verður með sérstaka áhorfsveislu í kvöld.
„Stúlknakórinn sem söng í atriðinu með Molly [Sandén] ætlar að hittast og horfa saman. Þetta er auðvitað gríðarlega stórt tækifæri fyrir þær og skemmtileg upplifun fyrir þær að vera í þessu,“ segir Daníel.

„Þegar við fengum tilnefninguna þá fór allt bara á milljón“
Húsavíkustofa hefur nýtt sér tilnefningu og nafn lagsins til hins ítrasta og unnið hörðum höndum í að markaðssetja Húsavík á erlendri grundu.
„Þetta er búið að vera gríðarleg vinna. Myndin kom út í fyrra og þá var auðvitað gríðarlega mikið umtal um myndina og allt það. Svo dvínaði það aðeins eðlilega og svo fór Örlygur Hnefill, sem er gríðarlegur frumkvöðull og kraftur í honum, af stað með myndbönd og herferðina Óskar frá Húsavík. En þegar við fengum tilnefninguna þá fór allt bara á milljón,“ segir Daníel.
Hann hitti Örlyg fyrr í kvöld og fóru þeir yfir árangurinn. „Það eru um 400 sblaðagreinar og viðtöl sem hafa farið út síðustu vikurnar. Þannig þetta er alveg gríðarlega mikið og tug milljónir manna sem eru búnir að heyra um Húsavík. Ég held að menn átta sig ekki alveg á umfanginu á því hvað þetta er stórt,“ segir Daníel.
Lyft upp andanum í bænum á covid-tímum
„Það sem er skemmtilegt við þetta núna er að á síðustu vikum hafa allir lagst á eitt og hjálpast að við að grípa þetta tækifæri. Fyrirtæki, einstaklingar og sveitarfélagið. Til þess að vinna úr þessu því þetta er tækifæri sem mun ekki koma aftur, að lítill bær á Norðausturlandi fái svona athygli,“ segir Daníel.
„Líka núna á covid-tímum þá er þetta er búið að vera gríðarlega gaman og lyft upp andanum hérna í bænum. Ég er búinn að vera hérna að mála rauða dregilinn og það gaman að sjá athyglina sem hann fær.“
Daníel segir að allt þetta jákvæða umtal um Húsavík í erlendum fjölmiðlum hefur létt á bæjarbúum á tímum kórónuveirunnar.
„Það er akkúrat eitthvað svona sem fólk þarf á þessum tímum,“ segir Daníel.
„Hvernig sem á fer þá er þetta gríðarlegur sigur fyrir Húsavík“
Spurður um hvort hann hafi trú á því að lagið vinni segist Daníel vona það besta.
„Hvernig sem á fer þá er þetta gríðarlegur sigur fyrir Húsavík og okkur öll. Auðvitað er maður jákvæður og vonar það besta en við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum ekki eina lagið, þetta er ekki alveg komið,“ segir Daníel.
„Við ætlum síðan að halda áfram að vinna með þetta eftirá og halda þessum bolta á lofti. Bæði til að halda okkur sem hvalaskoðunarhöfuðborgin og Eurovisionborgin,“ bætir Daníel við að lokum.