Sigríður Gísladóttir verkefnastjóri hjá Geðhjálp ólst sjálf upp hjá móður með alvarlega geðræna erfiðleika. Eftir að hafa unnið gríðarlega sjálfsvinnu sem hún segir eilífðarverkefni upplifði hún bakslag fyrir nokkrum árum þegar móðir hennar fór að birta heimagerð tónlistarmyndbönd á YouTube.

Líklega kannast fjölmargir lesendur við myndböndin sem víða hafa vakið kátínu. Sjálf setur Sigríður spurningamerki við skilningsleysi þeirra sem dreifa myndböndunum í hæðnistón, á eðli geðrænna veikinda.

„Ég býst við öllu af mömmu enda hafa aðstæðurnar sem hún hefur sett okkur í verið svo súrrealískar að það kemur mér í raun ekkert á óvart,“ segir Sigríður en það var henni mikið áfall þegar hún fyrst sá myndböndin í dreifingu.

„Kannski var ég enn að reyna að fela að hún væri veik – en þarna missti ég endanlega tökin á að passa hana. Myndböndin eru birtingarmynd veikinda hennar og það er rosalega sárt að þau séu fyrir allra augum. Á sama tíma er hún ekki að skaða neinn og þetta er það sem veitir henni ánægju. Ég er því ekki ósátt við hana heldur hvernig margir í samfélaginu hafa tekið á móti því, sem hefur verið sárt.“

Sigríður segist margoft hafa verið í aðstæðum þar sem fólk hafi spilað myndbönd móður sinnar og gert grín af henni. Hún hafi þá staðið upp og sagt: „Afsakið! Þetta er mamma mín! Mér finnst ekkert fyndið við þetta!“

Vissulega hafi þá komið á fólk og það skammast sín.

„En að sama skapi segir það – „Já, það sést alveg að hún sé veik.“ Ég spyr þá á móti: „Ef það sést vel að hún sé veik, hvað er þá svona fyndið við þetta?“ Er samfélagið okkar þannig að við sitjum heima hjá okkur og spilum myndbönd af fólki með geðrænan vanda og hlæjum að því?“

Sigríður undrar sig á því að þetta sé oft sama fólkið og segist ekki vera með fordóma gagnvart fólki með geðrænan vanda.

„En þú verður að skoða gildi þín og viðhorf í lífinu áður en þú getur sagt það.“

Hún bendir jafnframt á að hún hafi verið vör við dreifingu myndbanda þar sem móðir hennar hafi verið fengin til að skemmta í einkasamkvæmum.

„Þetta eru oft landsþekktir karlar sem eru að hlæja að henni og birta af því myndbönd. Í mínum huga er þetta birtingarmynd fordóma gagnvart fólki með geðrænan vanda í bland við kvenfyrirlitningu.“

Vinsældum myndbandanna hefur svo öðru hvoru fylgt fjölmiðlaumfjöllun.

„Þá hefur hún stundum tekið fyrir fortíðina og það hefur verið litað þessum ranghugmyndum þar sem hún hefur talað mikið um pabba og okkur systkinin. Það sem hefur stungið mig eru athugasemdirnar við fréttirnar þar sem fólk hefur ásakað okkur fyrir að hafa yfirgefið hana. En ef fjögur börn hafa lokað á móður sína er yfirleitt eitthvað hrikalegt búið að ganga á – eitthvað sem maður á ekkert að tjá sig um á samfélgsmiðlum,“ segir hún ákveðin.

Aðspurð segir Sigríður samband þeirra systkina sterkt, þau séu heild sem styðji við hvert annað. „Þegar mamma fer í fjölmiðla og segir eitthvað hræðilegt um okkur, hringjum við í hvort annað, enda enginn sem skilur þetta raunverulega nema við. Það er ekki hægt að fara í einhverja fræðigrein og leita að því hvað maður gerir þegar mamma manns fer að gefa út YouTube myndbönd,“ segir Sigríður og hlær.

„Það er erfitt að setja sig í þessa stöðu. Þegar einhver birtir myndband af henni verð ég að mörgu leyti átta ára og finn djúpa skömm, trúi ekki að þetta sé mamma mín. En svo finn ég líka sterka verndartilfinningu, langar svo að passa hana og veit að ég get það ekki. Svo finn ég fyrir reiði og rosalegri sorg að líf hennar hafi farið svona, að líf okkar hafi farið svona.“