Sigrún Sól Ólafsdóttir missti bróður sinni, Ólaf Þór Ólafsson, árið 2006 en hann drukknaði í Sundhöll Selfoss aðeins fjörutíu og tveggja ára gamall.

Hún segir að slysið í sundhöll Reykjavíkur í síðustu viku, þar sem 31 árs gamall maður lést, hafi hrært upp sárum og erfiðum minningum. Hún vonast til að raunverulegar úrbætur verði gerðar í öryggismálum í sundlaugum.

Ólafur Þór Ólafsson, drukknaði í Sundhöll Selfoss í október 2006. Sigrún segir að líkt og í máli mannsins sem lést í síðustu viku hafi verið fullyrt að bróðir hennar hafi verið veikur. Krufning leiddi síðar í ljós að ekkert amaði að honum, hann drukknaði.

Hún segir sárt að slys sem þessi komi upp aftur og aftur.

„Slys geta gerst. En, það er gjörsamlega sturlað að ekki sé farið margfalt betur yfir öryggismál og verkferlar lagaðir í kjölfarið. Hvað þarf mörg mannslíf til?," spyr Sigrún.

Kvöldið sem að Ólafur lést var slagveður úti en hann hafði legið á botni sundlaugarinnar í margar mínútur áður en annar sundlaugargestur kom auga á hann.

Sundlaugarvörðurinn sem var á vakt kvöldið sem Ólafur lést var ung stúlka sem var ein látin bera ábyrgð að gæta svæðisins þar sem slysið var, sem er stórt og mikið. Sigrún segir að stúlkan hafi fengið taugaáfall eftir atvikið. „Það er óskiljanlegt að ein manneskja þar að auki ung og lítið þjálfuð sé falið svona risaábyrgð. Foreldrar mínir óttuðust um heilsu starfsmannsins eftir þetta. Til að vernda hana, sögðu þau fjölskyldu hennar að um veikindi hefði verið að ræða. Fólk trúði því þar sem bróðir minn var einhverfur og notaði auk þess sondu. En hann var líkamlega hraustur og fór í sund á hverjum einasta degi."

Engar útskýringar

Þrátt fyrir að krufning hafi leitt í ljós að Ólafur hafi drukknað, fékk fjölskylda hans enga útskýringu og engum verkferlum var breytt.

„Ég reyndi að spyrja en við stigum öll svo varlega til jarðar því við höfðum áhyggjur af unglingnum sem tók á sig sök og var í miklu áfalli. En þetta var svo sannarlega ekki hennar sök," segir Sigrún.

Ekki eina tilvikið

Hún segir einnig frá því að mörgum árum eftir dauða bróðir hennar hafi hún lent í atviki sem sundlaugargestur í sömu sundlaug þar sem hún varð vitni að því að ungt barn gleypti mikið vatn og átti í erfiðleikum með að anda.

„Enginn starfsmaður var sýnilegur og enginn sýndi viðbrögð. Þarna var hópur barna í áfalli sem héldu að vinur þeirra væri að drukkna en enginn kom. Ég ruddist upp í útiturninn, þar sat ein unglingsstelpa og var að skoða símann sinn. Eftir á reyndi ég að tala um þetta við starfsmenn í afgreiðslunni og það var bara yppt öxlum og horft á mig skringilega. Enda kannski ekki skrýtið því ég brast í grát og það hæfði eflaust ekki tilefni eða stund og stað. Aftur var ekkert skoðað og ekkert gert," útskýrir Sigrún.

Síðastliðið sumar varð svo annað dauðsfall í Sundhöll Selfoss, þar sem eldri karlmaður lést við sundiðkun. Hann var á botni sundlaugarinnar í sjö mínútur áður en hann fannst en vaktaskipti sundlaugarvarða átti sér stað þegar hann lést.

„Drukknun í sundlaugum á ekki að eiga sér stað. Ef öryggisgæsla og viðbragðsflýtir væri í lagi hefðum við
ekki tapað öllum þessum lífum," segir Sigrún að lokum.

Líta málið alvarlegum augum

Bragi Bjarnason, deildarstjóri frístundar- menningardeildar hjá Árborg, segir í samtali við Fréttablaðið að allir verkferlar hjá Sundhöll Selfoss hafi verið endurskoðaðir eftir slysið síðasta sumar.

„Strax eftir slysið sem varð í fyrra fórum við í að endurskoða verkferla. Hvað hefði verið hægt að gera betur og við endurskoðuðum uppsetningu á myndavélakerfinu hjá okkur til að yfirsýn yrði betur hjá okkur. Við höfum unnið eftir því síðan. Slysið í Sundhöll Reykjavíkur í síðustu viku ýtir við öllum sundlaugum landsins að huga að öryggismálum en sérstaklega við okkur, þar sem það er stutt síðan að við upplifðum þetta sjálf," segir Bragi.

Bragi segir að farið verði aftur með starfsmönnum yfir stöðu öryggismála í vikunni til að skoða hvernig hægt sé að hafa svæði sundlaugarinnar sem öruggust. Hann segir jafnframt að allir starfsmenn fari í gegnum námskeið og öryggisferla og eigi að vera vel undirbúnir að takast á við atvik sem gætu komið upp. „ Því miður getum við ekki gert alveg 100 prósent til að forðast slysin en auðvitað viljum við það. Þetta er eitthvað sem enginn vill lenda í," segir Bragi að lokum.