Mikið flóð varð á Akur­eyri fyrr í dag vegna ó­veðursins sem gengið hefur yfir landið. Veitinga­húsið Vitinn Mat­hús er eitt þeirra fyrir­tækja sem fór verst úr flóðinu. Eig­andinn segir að ef brugðist hefði fyrr við, hefði tjónið orðið miklu minna.

„Það tók langan tíma fyrir allt að gerast hérna úti. Við lokuðumst inni í húsinu á tíma­bili og komumst ekkert út. Maður var að horfa út og það var lítið sem ekkert að gerast,“ segir Þórunn Ágústa Garðars­dóttir, eig­andi Vitans Mat­húss í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Þannig að, ef hefði verið brugðist fyrr við, þá hefði tjónið verið miklu minna,“ bætir hún við.

Þórunn segist hafa þurft að bíða eftir því að gatan væri grafin í sundur fyrir framan, eftir það var vatninu hleypt út í sjó og brunnarnir í götunni opnaðir. „Svo kom slökkvi­liðið með dælur og dældi vatninu í burtu. Þá loksins gátum við farið að dæla úr húsinu“

Þórunn segir of snemmt að segja til um hversu mikið tjónið er.
Fréttablaðið/Auðunn

Vatnið náði upp að kálfa

„Ég var í stíg­vélum úti og það rétt slapp að það flæddi ofan í þau, þau náðu samt upp fyrir kálfa,“ segir Þórunn um hvernig að­koman var í morgun.

„Á einum og hálfum klukku­tíma jókst það alveg helling og hurðirnar héldu ekki við þannig að það flæddi bara inn í húsið og það var eigin­lega ekkert hægt að gera því það bara jókst og jókst vatnið úti, sem flæddi síðan inn,“ segir hún.

„Við erum með lið af góðu fólki itl að aðstoða okkur, þannig að við ætlum að vera eins bjartsýn og við getum,“ segir Þórunn.
Fréttablaðið/Auðunn

Vonast til að geta opnað á morgun

Þau hafi þó bjart­sýnina að vopni og ætla að reyna að keyra mat út af staðnum á morgun. „Við eigum ekki eftir að geta opnað inn á staðinn á morgun, en við erum að vonast til að geta alla veganna keyrt út matinn, en ef allt gengur súper-vel í kvöld, þá kannski getum við opnað inn á staðinn alla veganna part af honum.“

Þá segir Þórunn að það sé of snemmt að segja til um hversu mikið tjónið sé. „Við erum ekki farin að skoða það en það eru gifs­veggir hérna í húsinu, þeir eru skemmdir, það er gólf­efni skemmt, inn­réttingar. Þannig að það er alveg hellingur,“ segir hún.

Slökkviliðið á Akureyri aðstoðaði við að dæla vatni út úr húsinu.
Fréttablaðið/Auðunn

Aftur há­flóð seinna í kvöld

„Það er aftur há­flóð í kvöld milli 21-22 og við munum fylgjast vel með stöðunni. Við viljum biðja ykkur sem eigið hús­eignir á þessu svæði að fylgjast vel með, gera þær ráð­stafanir sem þið getið til að forða frekara tjóni,“ segir í færslu lög­reglunnar á Norður­landi eystra á Face­book.

Þórunn segist til­búin að bregðast við því, ef skyldi byrja að flæða aftur.

„Nú erum við undir­búin, það bjóst enginn við þessu í dag, en nú erum við undir­búin og erum með dælur og allt hérna á staðnum og ætlum bara að vera hérna þangað til að við vitum að það er pott­þétt ó­hætt að fara,“ segir hún.

Vatni var dælt úr húsinu í nánast allan dag.
Fréttablaðið/Auðunn