Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, kona sem er ákærð fyrir samverknað að morði Armando Beqirai, neitar sök og segist hafa verið hrædd um sjálfa sig og dóttur sína eftir að hún heyrði að Angjelin hefði drepið Armando. Þetta kom fram í skýrslutöku í Rauðagerðismálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Angjelin Stark Merka­j, albanskur maður sem hefur játað á sig morðið, bar sjálfur vitni í morgun og sagðist hafa drepið Armando í sjálfsvörn og að hin sem eru ákærð fyrir samverknað hafi ekki átt aðild að manndrápinu. Þau sem eru á­kærð eru Angjelin, Claudia, sem er unnusta Angjelin, Murat Seli­vrada og Sheptim Qerimi.

Claudia er sökuð um að hafa vaktað Armando daginn sem hann var myrtur og að hafa flutt morðvopnið í tösku frá Borgarnesi til Reykjavíkur. Í skýrslutöku í morgun sagðist hún ekki hafa vitað hvað væri í töskunni. Hún hafi séð Angjelin áður með skammbyssuna og vissi að hún væri stundum í þessari tösku en hafi ekki spurt Angjelin nánar út í innihald töskunnar þegar hún fékk hana í hendurnar.

„Ég sá Angjelin var búinn að eyðileggja skóna og sá að Armando var dáinn og þá spurði ég hann hvort hann hefði drepið Armando. Mér fannst þetta allt vera að smella saman, fréttirnar og skórnir hans Angjelin og þess vegna spurði ég bara.“
Fréttablaðið/Anton Brink

Lét Angjelin vita þegar bíllinn fór

Claudia segist hafa vitað af ágreiningi milli fórnarlambsins Armando og „Tona“ sem heitir fullu nafni Anton Kristinn Þórarinsson vegna peningaskuldar. Angjelin sagði í morgun að Armando beðið sig um að taka börnin hans Tona af honum en þegar Angjelin neitaði hafi Armando hótað honum og syni hans lífláti.

Angjelin sagði í morgun að málið snerist ekki bara um einn mann heldur allan undirheiminn.

Claudia sagði í skýrslutöku í morgun að hún væri að fylgjast með ákveðnum bíl fyrir utan Downtown apartments við Rauðarárstíg þennan dag og átti að láta Angjelin vita þegar bíllinn væri farinn. Átti hún að senda leyniskilaboðin „Hæ sexý“ til Angjelin sem merki um að Armando væri á leiðinni heim.

Kolbrún Benediktsdóttir, sækjandi í málinu, spurði Claudiu hvort hún vissi hver ætti bílinn. „Hvarflaði ekki að mér að spyrja. Ég geri yfirleitt það sem mér er sagt að gera. Ef hann segir mér að gera eitthvað þá geri ég það,“ sagði Claudia.

„Ég vissi að hann væri búinn að drepa manneskju og ég var hrædd um að hann myndi gera mér eitthvað.“

Sá mann koma með peninga daginn eftir morðið

Eftir að Claudia sendi skilaboðin til Angjelin segist hún hafa yfirgefið svæðið og farið beint heim til Angjelin og hafi því ekki orðið vitni að skotárásinni. Það kvöld fékk hún símtal frá Angjelin sem bauð henni að fara með sér norður í Varmahlíð. Keyrðu þau alla nóttina norður og voru komin í Varmahlíð um klukkan 5 eða 6 um morguninn. Það var ekki fyrr en þann morgun sem hún las um skotárásina í fréttamiðlum og grunaði þá að Angjelin hafi skotið Armando.

„Ég sá Angjelin var búinn að eyðileggja skóna og sá að Armando var dáinn og þá spurði ég hann hvort hann hefði drepið Armando. Mér fannst þetta allt vera að smella saman, fréttirnar og skórnir hans Angjelin og þess vegna spurði ég bara,“ lýsti Claudia í vitnastúkunni. Það kvöld hafi einhver komið að heimsækja Angjelin í Varmahlíð en Claudia man ekki hvort það hafi verið Toni eða sonur hans. Var einstaklingur að koma með peninga.

Kolbrún spurði Claudiu hvers vegna hún hafi ekki sagt lögreglunni strax frá þegar hún fattaði að Angjelin hefði drepið Armando. Hvers vegna hún hafi sagt Murat hafa beðið hana um upplýsingar um bílinn á Rauðarárstíg.

„Ég var svo hrædd og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Eina sem ég hugsaði um var dóttir mín. Ég vissi að hann væri búinn að drepa manneskju og ég var hrædd um að hann myndi gera mér eitthvað. Hann hefur aldrei gert mér neitt en ... ég veit ekki. Ég var kannski ekki hrædd við Angjelin en ég veit ekki hvað var að fara í gegnum hausinn á honum.“

Claudia sat fyrir svörum í dag.
Fréttablaðið/Anton Brink