Landsréttur hafnaði og staðfesti tvo nálgunarbannsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í sama málinu í síðustu viku. Í málinu eru feðgar grunaðir um hótanir og líkamsárás í garð manns á síðasta ári. Samkvæmt brotaþolanum er ástæðan fyrir þessum meintu brotum ásakanir um kynferðisbrot sem hann á að hafa framið í garð fjölskyldumeðlims þeirra.
Héraðsdómur hafði úrskurðað feðganna, bæði soninn og föðurinn, í sex mánaða nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þeim var bannað að koma í námunda við heimili brotaþolans á svæði sem afmarkast við fimmtíu metra radíus frá húsinu. Auk þess máttu þeir ekki veita honum eftirför, nálgast hann á almannafæri eða setja sig í samband við hann á annan hátt.
Í Landsrétti var annar úrskurðurinn staðfestur og hinum hafnað. Ekki kemur fram hvor þeirra eigi við um föðurinn eða soninn, en sá er varðaði hótanir var staðfestur, og sá sem varðaði líkamsárás var hafnað.
„Farðu með þetta í lögguna mér er skít sama“
Brotaþolinn segir að annar maðurinn hagi ítrekað hótað honum og foreldrum hans lífláti. „Ef ég næ þér einn daginn þá pynta ég þig þangað til þú ert dauður. Og það sama mun ganga yfir foreldra þína. Farðu með þetta í lögguna mér er skít sama. Að rústa þér andlega og líkamlega er það eina sem ég mun einbeita mér að það sem eftir er. Mundu ég á ekki erfitt með að sitja í fangelsi.“ segir í skilaboðum sem annar mannanna sendi brotaþola í ágúst á síðasta ári.
Þá kom fram í lögregluskýrslu í október að maðurinn hafi hótað brotaþolanum að ef hann myndi rekast á hann „þá myndi hann drepa hann eða einhvern nákominn honum“. Í skýrslu sem tekin var af brotaþolanum í desember að hann hefði engan áhuga á að pynta brotaþolann líkamlega heldur „eyðileggja hann andlega“ enda væri það miklu verra að eyðileggja hann andlega en líkamlega þar sem „allt líkamlegt grær og hann jafnar sig.“
Grunaður um að sparka ítrekað í höfuð mannsins
Hinn maðurinn er grunaður um líkamsárás gagnvart brotaþolanum í október á síðasta ári, sem framin var ásamt öðrum manni. Hann er talinn hafa sparkað ítrekað í höfuð brotaþola. Vitni urðu að árásinni, en þar á meðal er lögreglumaður sem stöðvaði árásina.
Í yfirheyrslu neitaði hann að tjá sig um málið að undanskildu að hann kvaðst hafa hrækt á brotaþolann og sagt honum að drulla sér í burtu. Á vettvangi málsins hafði hann þó sagst hafa ráðist á brotaþolann og lamið hann og það sama sagði samverkamaður hans.
Landsréttur taldi í líkamsárásarmálinu væri ekkert sem lægi fyrir sem gæti rennt stöðum undir að hann þyrfti að sæta nálgunarbanni.