Mikill munur er á verði á kílóvattstund af rafmagni þegar rafbílar eru hlaðnir í heimahúsi og á hraðhleðslustöð.

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, segir hverja kílóvattstund í heimahleðslu kosta um 15 krónur en í hraðhleðslu geti hún farið upp fyrir 50 krónur. Enn sé þó margfalt ódýrara að keyra rafmagnsbíl en bensín- eða dísilbíl.

„Verðið getur verið jafnvel þrisvar til fjórum sinnum hærra en þegar fólk er að hlaða heima hjá sér en maður þarf að gera sér grein fyrir því að hluti af kostnaðinum fer í að borga fyrir hraðhleðslustöðina, tengigjald rafveitunnar, launakostnað og allt annað sem fylgir rekstri á svona stöðvum, en bara hraðhleðslustöðin sjálf getur kostað 4-5 milljónir,“ segir Tómas og bendir á að algengt verð fyrir hleðslustöðvar við heimili sé á bilinu 70-200 þúsund krónur.

Þá segir Tómas verðmuninn ekki óeðlilegan. „Fyrstu tvö til þrjú árin gaf til að mynda ON allt rafmagn á sínum hleðslustöðvun því þá var markmiðið ekki að græða heldur að hjálpa við orkuskiptin,“ segir Tómas.

Nú þegar um 12 þúsund rafbílar séu komnir á götur landsins geti raforkusalar fengið eitthvað fyrir sinn snúð með sölu á rafmagni til rafbílaeigenda. Þrátt fyrir að fólk nýti sér rafhleðslustöðvar sé enn miklu ódýrara að keyra rafbíl en bensín- eða dísilbíla. „Ef við horfum bara á orkuna sem fer í það að knýja bílinn áfram er svona tíu sinnum ódýrara að keyra rafmagnsbíl, svo ég tali nú ekki um ef við lítum einnig á aðra hluti eins og viðhald, olíuskipti og svo framvegis,“ segir Tómas.