Feminíska fötlunar­hreyfingin Tabú gaf frá sér yfir­lýsingu í gær vegna þeirrar um­ræðu sem hefur sprottið upp í kjöl­far Kveiks-þáttar þar sem rætt var við leikarann Þóri Sæ­munds­son.

Í þættinum lýsir Þórir því að hann hafi átt erfitt með að fá vinnu eftir árið 2017 þegar hann var rekinn úr Þjóð­leik­húsinu fyrir að hafa sent typpa­myndir á ó­lög­ráða stelpur. Hann hafi til að mynda verið rekinn frá Ferða­þjónustu fatlaðra þegar yfirmaður hans frétti af mynda­sendingunum.

Í yfir­lýsingunni frá Tabú segir að um­ræðan í fjöl­miðlum í kjöl­far þáttarins sem birtur var síðast­liðinn þriðju­dag hafi beint eða ó­beint tekið undir efa­semdir um rétt­mæti upp­sagnar Þóris frá ferða­þjónustunni.

„Fatlað fólk er jaðar­settur hópur sem er í marg­falt meiri hættu á að verða fyrir of­beldi, sér í lagi eru fatlaðar konur og börn í aukinni hættu. Á­stæður fyrir auknum líkum á of­beldi eru margar, en felast meðal annars í þeim tak­mörkuðu og oft að­greindu úr­ræðum sem fatlað fólk þarf að nýta sér í annars ó­að­gengi­legu sam­fé­lagi,“ segir í yfir­lýsingunni.

Í ferða­þjónustunni sé fatlað fólk oft eitt í bíl með ó­kunnugum bíl­stjóra þar sem ríkir mikið valda­ó­jafn­vægi. Þá hafi komið upp dæmi um of­beldi hér á landi sem tengist ferða­þjónustunni. Það sé þess vegna eðli­legt að gera ríkar kröfur til þeirra sem vinna í ferða­þjónustunni og ganga úr skugga um að það hafi ekki gerst upp­víst um að brjóta á fólki eða mis­nota valda­stöðu sína.

„Við eigum að gera ríkari kröfur til ein­stak­linga sem starfa með fötluðu fólki en gengur og gerist al­mennt á vinnu­markaði, ekki minni,“ segir í yfir­lýsingunni. „Á­byrgðin í garð undir­skipaðra hópa er mikil.“

Yfir­lýsing Tabú í heild sinni

Í ljósi um­ræðunnar síðustu daga sendum við undir­rituð í Tabú frá okkur eftir­farandi yfir­lýsingu.

Í sjón­varps­þættinum Kveik þann 2. nóvember sl. þar sem rætt var við Þóri Sæ­munds­son kom fram að honum hafi verið sagt upp starfi hjá Ferða­þjónustu fatlaðra eftir að vinnu­veit­endur fengu upp­lýsingar um að Þórir hefði sent typpa­myndir af sér til ó­lög­ráða stúlkna. Í kjöl­far um­ræðna í fjöl­miðlum, þar sem fjöl­miðla­fólk hefur beint eða ó­beint tekið undir efa­semdir um rétt­mæti upp­sagnar Þóris sem bíl­stjóra ferða­þjónustunnar, viljum við minna á eftir­farandi.

Fatlað fólk er jaðar­settur hópur sem er í marg­falt meiri hættu á að verða fyrir of­beldi, sér í lagi eru fatlaðar konur og börn í aukinni hættu. Á­stæður fyrir auknum líkum á of­beldi eru margar, en felast meðal annars í þeim tak­mörkuðu og oft að­greindu úr­ræðum sem fatlað fólk þarf að nýta sér í annars ó­að­gengi­legu sam­fé­lagi.

Eitt þessara úr­ræða er áður nefnd ferða­þjónusta, en þar er fatlað fólk gjarnan eitt í bíl með ó­kunnugum bíl­stjóra í að­stæðum þar sem full­komið valda­ó­jafn­vægi ríkir. Hér á landi hafa komið upp of­beldis­mál innan ferða­þjónustunnar sem hafa ein­mitt átt sér stað í slíku valda­ó­jafn­vægi.

Í þessu ljósi er ekkert ó­eðli­legt að gerðar séu ríkar kröfur til starfs­fólks ferða­þjónustunnar og að hafið sé yfir allan vafa að það eigi ekki sögu um kyn­ferðis­lega á­reitni og/eða annað of­beldi og/eða hafi mögu­lega notað valda­stöðu sína og yfir­burði til að mis­nota undir­skipaða ein­stak­linga. Við eigum að gera ríkari kröfur til ein­stak­linga sem starfa með fötluðu fólki en gengur og gerist al­mennt á vinnu­markaði, ekki minni.

Við beinum þessari at­huga­semd einkum til fjöl­miðla­fólks sem stýrir um­ræðu og annarri um­fjöllun er kann að snerta fatlað fólk. Á­byrgðin í garð undir­skipaðra hópa er mikil.