Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðamaður á RÚV, segir að umfjöllun um Aldísi Schram og meint kynferðisbrot föður hennar, Jóns Baldvins Hannibalssonar, hafi ekki orðið til í tómarúmi. Meint ólögmæt frelsissvipting Aldísar og meint sifjaspjell Jóns Baldvins hafi sannarlega átt erindi við almenning, sérstaklega í ljósi umræðunnar sem var í gangi árið 2019 í Me Too-byltingunni þar sem margar tugir frásagna höfðu komið fram um meint brot Jóns Baldvins.

Þetta kom fram í skýrslu hans í Héraðs­dómi Reykja­víkur í morgun, þar sem aðal­með­ferð fer fram í meið­yrða­máli sem Jón Baldvin Hannibalsson höfðar gegn dóttur sinni Aldísi Schram og Sig­mari fyrir ummæli sem voru látin falla í viðtali á RÚV.

Jón Baldvin krefst ómerkingar á eftirfarandi ummælum:

Rás 2, 17. janúar 2019, ummæli Aldísar:

 • ... hann fær mig undir fölsku yfirskini að heimsækja afa minn ... mér var haldið inni þarna í mánuð sem sagt ólöglega.
 • ... já. Fimm sinnum á næstu 10 árum kastast í kekki milli mín og Jóns Baldvins Hannibalssonar og því lyktaði ávalt með því að (sic) sigaði á mig lögreglu sem handtók mig, hann er náttúrlega utanríkisráðherra ...
 • Hann gat bara þaðan í frá, þáverandi utanríkisráðherra og síðar sendiherra, virðist vera að hringja bara í lögreglu og þá var ég þar með handtekin, umsvifalaust í járnum, farið með mig upp á geðdeild ...
 • ... hann er þá líka að misnota lítil börn.
 • ... ég neita að skilja þau eftir í umsjón karls sem káfar á litlum stúlkubörnum.
 • Og sem sagt 10 mínútum eftir að ég kæri Jón Baldvin þá hringir dyrabjallan. Þar ruddust þarna inn tveir lögreglumenn ef ekki þrír og ég, þegar ég sé það þá reyni ég að loka en auðvitað tókst mér það ekki, þeir ryðjast þá þar með inn og þeir svara mér engu, ryðjast inn í stofu þar sem dóttir mín 5 ára gömul er að lesa og þegar barnið er tekið frá mér þá verð ég æf.
 • ... það er faðir minn sem stendur fyrir því að hér eigi að loka mig inni.
 • Fíkn, auðvitað er barnagirnd fíkn, þetta er fíkn.
 • ... nauðungarvistun án dóms og laga er þá ólögmæt frelsissvipting ...

Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur Aldís:

 • ... og sigra hann og hans barnaníðingabandalag.

Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi Sigmar (Aldís til vara):

 • ... að Jón Baldvin hafi notað aðstöðu sína sem sendiherra til að láta nauðungarvista hana á geðdeild.
 • Sá fundur Aldísar og Jóns Baldvins segir hún hafa reynst sér örlagaríkur og orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.
 • ... að Jón Baldvin hafi sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og geðdeild með það fyrir augum að fá hana nauðungarvistaða í enn eitt skiptið.
 • Þar segir hún einnig að Jón Baldvin hafi framið sifjaspell þegar hún var fullorðin kona.

„Það er fullkomnlega eðlilegt að Aldís komi fram í fjölmiðli og segi frá sinni hlið.“

Var hæf til að koma í viðtal

Sigmar minnist þess að nokkrum dögum áður en viðtalið birtist í Morgunútvarpi Rásar 2, hafi Guðrún Harðardóttir komið fram og sagt sína sögu. Aldís hafi í áratugi haldið því fram að Jón Baldvin hafi brotið kynferðislega gegn konum og börnum og fjölskylda hennar haldið því fram að hún væri geðveik. Því væri eðlilegt framhald að taka viðtal við Aldísi.

„Hún er búin að sitja undir því mjög lengi, áratugum saman, að hún sé geðveik og að allt sem hún er að fullyrða um áreitni og kynferðisbrot föður síns, eigi rætur í einhverja geðveiki. Sú umræða kemur frá fjölskyldu Aldísar. Það er fullkomnlega eðlilegt að Aldís komi fram í fjölmiðli og segi frá sinni hlið á þessum veikindum og hvað stóð til að hún væir lögð inn á spítala, hver það var sem bað um að hún væri lögð sinn á spítala, hvaða ferli var þegar hún var lögð inn á spítala,“ sagði Sigmar.

Aðspurður sagðist hann ekki taka afstöðu til þess hvort Aldís væri með geðhvarfasýki enda væri hann ekki læknismenntaður en ljóst var að sérfræðingum bæri ekki saman um greiningu Aldísar. Hann hafi, ásamt Helga Seljan fjölmiðlamanni, metið það svo þegar viðtalið var tekið við Aldísi árið 2019 að hún væri með fullla og óskerta og góða dómgreind og hæf til að koma í viðtal.

„Við erum ekki dómstóll eins og Jón Baldvin heldur ranglega fram.“

Aldís Schram sat gegnt föður sínum í dómsal 101 í aðalmeðferð í dag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Hvort sem fólk er greint með geðhvarfasýki eða ekki, það er ef þú ert með geðhvarfasýki þá ert þú ekki í einhverjum ranghugmyndaheimi alla daga allan ársins hring. Það er ekki þannig. Þú getur verið með ranghugmyndir í maníu eða geðlægð en þess á milli ertu fullkomlega eðlilegur og heilbrigður eins og allir hinir,“ sagði Sigmar og bætti við hún hefði getað stutt mál sitt með gögnum og vísað rétt til þeirra þegar þeir hafi spurt hana út í það.

„Okkur fannst eðlilegt að kona sem svipt hafði verið frelsi tímabundið ætti rétt á því að segja sína hlið á því máli. Þannig blasir það við okkur sem fréttamönnum og út frá fjölmiðlagildum og þess háttar. Við erum ekki dómstóll eins og Jón Baldvin heldur ranglega fram. Við leggjum mat á það hvort þarna sé frásögn sem bætir einhverju við til almennings og hvort það eigi verindi við almenning í ljósi þeirrar umræðu sem er í gangi,“ sagði hann og tók fram að hann hafi talið fjölmiðla hafa brugðist Aldísi með því að fjalla ekki um mál hennar fram að þessu.

„Við höfum brugðist Aldísi í gegnum söguna með því forðast að vilja að fjalla um þessi mál vegna þess að því var haldið fram að Aldís væri geðveik. Inni í það eru innbyggðir ómeðvitaðir fordómar gagnvart fólki sem er með einhverja veiki. Þessi mál hafa verið að dúkka upp á ritstjórn um árabil og löngu áður en Guðrún Harðardóttir kom fram með sín bréf.“

Ekki bara fjórar eða fimm konur

Lögmaður Jóns Baldvins spurði Sigmar um hvort hann hefði haft fyrir því að kanna fleiri heimildir í tengslum við fullyrðingar um meint sifjaspell Jóns Baldvins sem komu fram í færslu Aldísar Schram á Facebook. Sagði Sigmar að mikilvægt væri að skoða samhengið.

„Ef þessi Facebook ummæli hefði komið fram ein og sér þá hefðum við aldrei tekið þetta viðtal. En af því að þetta kemur sem hluti af fjölmörgum ummælum sem fjölmargir aðrir aðilar hafa sagt á löngum tíma þá höfum við þá skyldu gagnvart almenningi að þetta komi fram. Þetta eru ekki fjórar eða fimm konur, þarna voru komnar á annan tug kvenna sem höfðu stigið fram. Þá verður að skoða þetta mál í því samhengi.“

Út því að svo margar konur komu saman og báru sömu eða svipaða háttsemi upp á tiltekinn mann, þá var þetta orðið það alvarlegt að það var full ástæða til að birta umfjöllun.