Alma D. Möller landlæknir hvetur Íslendinga til að þétta sinn innri kjarna til að vernda aðra, forðast margmenni og sinna sóttvörnum.

Sviðsmyndir benda til þess að ástandið gæti færst í veldisvísivöxt en í dag greindust 59 með smit og voru 34 af þeim í sóttkví

Alma sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun eðlilegt að fólk finni fyrir svokallaðri „pandemic fatigue“, eða farsóttarþreytu á íslensku, og ítrekaði að samstaða væri besta sóttvörnin.

„Í ástandi eins og þessu er ekki hægt að gera hlutina þannig að allir séu sáttir og það er því eðlilegt að sumir upplifi hertar aðgerðir sem órökréttar,“ sagði Alma og bætti við að þrautseigja og þolinmæði skipti miklu máli.

„Gleymum ekki að við höfum þegar gengið í gegnum erfiðan tíma í þessum faraldri og við gerðum það með glæsibrag.“

Alma ítrekaði sóttvarnir og taldi upp hluti til að hafa í huga:

 • Þvo sér um hendurna með sápu í 20 sekúndur.
 • Vernda aðra með því að spritta á sér hendurnar áður en komið er við hluti í búðum eða á stigaganginum.
 • Vernda sjálfa sig með því að spritta á sér hendurnar eftir að komið er við hluti í sameiginlegum rýmum.
 • Forðast að vera með hendurnar í andlitinu (sérstaklega við munn, nef og augu).
 • Virða nándartakmarkanir og grímuskyldu.

Skynsamlegt væri að:

 • Forðast margmenni.
 • Þétta sinn innsta kjarna, þá sem við umgöngumst mest.
 • Vera heima fá maður einkenni sem minna á COVID-19 og leita eftir sýnatöku.

Alma hvatti einnig fólk til að:

 • Vera gott og tillitsamt við þá sem eru í einangrun eða sóttkví.
 • Gleðja náungann og hjálpast að.
 • Gera uppbyggilega hluti eins og að hreyfa sig.
 • Borða hollan mat.
 • Setja sjö til átta klukkustunda svefn í forgang.
 • Vera í góðum samskiptum við fjölskyldu og vini.

Staðan á heilbrigðisstofnunum landsins og Sjúkrahúsinu á Akureyri er almennt góð en þó er álag á Landspítalanum vegna stöðunnar.

Landlæknir hvetur heilbrigðisstarfsfólk að skrá sig í bakvarðarsveitina hjá heilbrigðisráðuneytinu og sömuleiðis einstaklinga að skrá sig á bakvarðarsveit velferðarþjónustu.

Þeir sem finna fyrir kvíða og áhyggjum í faraldrinum geta leitað sér hjálpar á covid.is eða með því að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717 eða með því að ræða við sérfræðinga á netspjalli 1717.is.