Sam­keppnis­eftir­litið hefur á­lyktað að eðli­legar skýringar hafi verið á hækkun gjald­skrá hjá Póst­mið­stöðinni ehf., ályktunin kemur í kjölfar kvörtunar Birtíngs útgáfufélags.

„Að virtum skýringum Póst­mið­stöðvarinnar á um­ræddri hækkun á gjald­skrá og með hlið­sjón af fram­komnum sjónar­miðum og þeim skil­yrðum sem hvíla á Póst­mið­stöðinni, er það niður­staða Sam­keppnis­eftir­litsins að ekki séu fram komnar vís­bendingar sem rétt­læti frekari rann­sókn á því hvort 11. gr. sam­keppnis­laga eða skil­yrði á­kvörðunar nr. 2/2019 hafi verið brotin,“ segir í reifun á á­kvörðun Sam­keppnis­eftir­litsins.

For­saga málsins er sú að Sam­keppnis­eftir­litið heimilaði kaup Ár­vakurs hf. og 365 miðla hf. á Póst­mið­stöðinni með til­teknum skil­yrðum sem sam­runa­aðilar gengust undir með undir­ritun sáttar við eftir­litið. Með sáttinni skuld­bundu sam­runa­aðilar sig til þess að fara að skil­yrðum sem miða að því annars vegar að vinna gegn skað­legum á­hrifum sam­runans á sam­keppni og hins vegar vinna gegn því að sam­runinn hafi nei­kvæð á­hrif á fjöl­ræði og fjöl­breytni í fjöl­miðlun.

Í sáttinni kemur meðal annars fram að Póst­mið­stöðin skuli 1. janúar og 1. júlí ár hvert gefa út al­menna verð­skrá vegna dreifingar á blöðum og öðru prent­efni, sem skuli gilda í við­skiptum Póst­mið­stöðvarinnar við við­skipta­menn sína.

Rekstrarvandi félagsins ástæða hækkunarinnar

Birtingur út­gáfu­fé­lag kvartaði Sam­keppnis­eftir­litsins um að hækkun á verð­skrá Póst­mið­stöðvarinnar gengi gegn sáttinni. Í erindinu fer Birtingur fram á að Sam­keppnis­eftir­litið skeri annars vegar úr um það hvort breytingar á út­gefinni verð­skrá Póst­mið­stöðvarinnar þann 1. desember 2019 hafi verið heimilar og hins vegar hvort 10 virkir dagar séu nægur fyrir­vari fyrir breytingar á verð­skrá Póst­mið­stöðvarinnar.

Birtingur segir í erindi sínu að þeim hafi borist til­kynning frá Póst­mið­stöðinni þar sem fram hafi komið að gjald­skrá fyrir­tækisins yrði hækkuð um 7,5 prósent frá 1. desember 2019. Á­stæðan fyrir hækkuninni hafi verið til­greind sem kostnaðar­hækkun, en ekki hafi verið gerð grein fyrir frá hverju hún stafaði. Síðar hafi Birtingur fengið nýja gjald­skrá senda.

Í svari Póst­mið­stöðvarinnar við fyrir­spurnum Sam­keppnis­eftir­litsins kemur fram að á­stæða hækkunarinnar sé ein­föld: Rekstur fé­lagsins á árinu 2019 hafi verið af­leitur.

Í niður­stöðu Sam­keppnis­eftir­litsins kemur fram að fyrir liggi að um­rædd hækkun á verð­skrá gilti jafnt um alla við­skipta­vini og voru hlut­höfum fé­lagsins ekki veitt betri kjör en öðrum við­skipta­vinum. Skylda Póst­mið­stöðvarinnar til að birta gjald­skránna tvisvar á ári var ætlað til að tryggja gagn­sæi í verð­lagningu í ljósi skyldu fyrir­tækisins til að sinna þjónustu á jafn­ræðis­grund­velli en ekki til að stýra því hve­nær unnt væri að bregðast við ó­fyrir­séðum breytingum í rekstri. Sam­keppnis­eftir­litið brýnir þó fyrir Póst­mið­stöðinni að kynna breytingar á verð­skrá með góðum fyrir­vara.

/Póst­mið­stöðin ehf. er í 49% eigu Torg ehf. eig­anda Frétta­blaðsins.