Það er einfaldlega eðlileg krafa að heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra geri Alþingi grein fyrir forsendum þeirra ákvarðana sem stjórnvöld taka varðandi sóttvarnaaðgerðir og að umræða fari fram í þingsal um leið og ákvarðanir ríkisstjórnar hafa verið kynntar.

Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í skoðanagrein á Vísi í dag.

Að sögn Þorbjargar Sigríðar hefur Viðreisn kallað eftir opinni umræðu frá upphafi. Ríkisstjórnin hafi boðað stefnumótunarvinnu síðastliðið sumar sem átti að vera kynnt innan tveggja til þriggja vikna.

„Ekkert hefur þó spurst til þessarar stefnumótunarvinnu síðan,“ segir Þorbjörg Sigríður.

Í gær var greint frá því að þingflokkur Viðreisnar óskaði eftir því að heilbrigðisráðherra, og eftir atvikum aðrir ráðherrar, gæfu skýrslu samdægurs eftir að hafa kynnt nýjar sóttvarnaaðgerðir eða tilkynnt um framlengdar aðgerðir.

Þorbjörg Sigríður segir mikilvægt að gagnrýnin umræða fái að eiga sér stað á vettvangi þingsins um aðgerðir stjórnvalda sem hafi víðtæk áhrif á samfélagið í heild sinni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þingmenn hafa kallað eftir samráði um sóttvarnaaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni fyrr í mánuðinum að í umræðu á Alþingi fyrir nokkru hafi þingmenn flokka kallað eftir því að þingið kæmi meira að ákvörðunum um sóttvarnaaðgerðir.