„Já, ég var svekktur, meira fyrir hönd kjördæmisins heldur en endilega persónulega en mér þykir þetta og þótti þetta óráð,“ sagði Páll Magnússon, alþingismaður í þættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni í kvöld á Hringbraut, um hvers vegna gengið var framhjá honum með ráðherraembætti við ríkisstjórnarmyndunina 2017.

Kynjasjónarmiðið látið trompa allt

„Ég hélt fram þeirri skoðun sem ég hef enn, að oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, sem er annað helsta vígi flokksins, sem hafði fengið mjög sterkt lýðræðislegt umboð, bæði unnið mjög stóran prófkjörssigur og síðan kosningasigur, að það væri eiginlega sjálfgefið að oddiviti kjördæmisins ætti að vera í ríkisstjórn en kynjasjónarmiðið var látið trompa þetta á þeim tíma.“

Það er prófkjör framundan í Suðurkjördæmi og aðspurður hvort hann muni súpa seyðið af því að flokkurinn er klofinn í Eyjum, segir Páll „sjálfsagt kemur það að einhverju leyti niður á mér, ég veit ekki hvað þetta vigtar þungt þegar upp er staðið.“

Tók ekki afstöðu við klofning flokksins

Sjálfstæðisflokkurinn í Eyjum klofnaði í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna 2018 en vígi flokksins hafði mjög lengi verið mikið. Páll segir það rakið til tillagna um að haldið yrði prófkjör fyrir kosningarnar en það hafði flokkurinn ekki viðhaft í 28 ár í Vestmannaeyjum. Afstaða til prófkjörs klauf sjálfstæðismenn í nær jafn stórar fylkingar sem endaði með því að rótgóin sjálfstæðikona, Íris Róbertsdóttir, var hvött til að leiða nýtt framboð þeirra sem yfirgáfu flokkinn.

Steig til hliðar

Páll sagði að hann hafi ekki tekið afstöðu með öðru hvoru liðinu, hlutverk hans hefið verið að lágmarka skaðann fyrir kjördæmið og tók því ákvörðun sem hann talsi að þjónaði því hlutverki. „Og það gerði ég með því að stíga til hliðar.“

Sigmundur Ernir ræðir við Pál Magnússon um pólitíkina, Ríkisútvarpið, samfélagið í Eyjum og edrúmennskuna.
Mynd/Hringbraut

Persónulega heift og samheldni

„Nándin er mikil en rúllugjaldið, það sem þú borgar fyrir þessa nánd er að við eigum erfitt með að leysa úr ágreiningsefnum án þess að gera þau persónuleg,“ sagði Páll um samfélagið í Vestmannaeyjum þar sem hann á sínar rætur eins og þekkt er.

Páll sem lýsir samfélaginu í Eyjum, þar sem rúmlega fjögur þúsund búa sem samheldnu samfélagi þar sem menn deili gleði og sorg og afrekum. „Í nítíu og níu prósent tilfella er þessi nánd falleg, góð og jákvæð en það er þarna einhver lítill endi einhvers staðar þar sem hún snýst upp í andhverfu sína.“

Venjuleg ágreiningsmál geta í Vestmannaeyjum valdið því að saumaklúbbar klofna, vinir til fjörtíu ára hætta að heilsast, útskýrði Páll. „Eðlileg ágreiningsefni verða að persónulegri heift,“ segir hann.

RÚV á að fara af auglýsingamarkaði

Páll er sem er fyrrverandi útvarpsstjóri og áður fréttastjóri á báðum stóru sjónvarpsstöðvunum er nú einn af þremur fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna sem menntamálaráðherra skipaði til að rýna lög um Ríkisútvarpið. Hópurinn á að gera tillögur að breytingum sem líklegar eru til að sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk Ríkisútvarpsins.

„Ríkisútvarpið á rétt á sér, já“, svaraði Páll um tilvistarrétt báknins á fjölmiðlamarkaði en það þurfi að endurskilgreina hlutverk þess. Sem útvarpsstjóri hafa hann alltaf sagt að hann teldi Ríkisútvarpinu betur borgið með því að vera ekki á auglýsingamarkaði. „Hafi það verið rétt þá, þá er það enn réttara núna,“ sagði Páll Magnússon í Mannamáli í kvöld á Hringbraut.