Upp hefur komið tilfelli um ebóluvírus í Úganda en vírusinn greindist í 5 ára gömlu barni sem hafði ferðast frá Kongó til Úganda þann 9. júní síðastliðinn með fjölskyldu sinni. Móðir drengsins hafði farið til Kongó til að hlúa að föður sínum sem hafði greinst með ebólu og var á heimferð aftur til Úganda þegar tilfellið kom upp.

Greint er frá því á vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Úganda að barnið lést í morgun. Að minnsta kosti tveir fjölskyldumeðlimir hins látna hafa nú greinst með vírusinn samkvæmt tilkynningu heilbrigðisráðuneytis Úganda og eru þeir í einangrun.

Þetta er fyrsta tilfelli ebólu í Úganda síðan 2013 en að minnsta kosti 2000 tilfelli hafa komið upp í Austur-Kongó síðan í ágúst í fyrra. Faraldurinn í Kongó er sá næstskæðasti frá upphafi.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Úganda segir að stjórnvöld séu undirbúin til þess að takast á við vandann og að niðurlögum vírussins verði ráðið. Yfirvöld höfðu séð til þess að bólusetja yfir 4700 heilbrigðisstarfsmenn í 165 heilbrigðisstofnunum fyrir faraldrinum. Búið er að semja um að flytja þá sem greinast með vírusinn í Úganda til Kongó, séu sjúklingar samþykkir því.

Tedros Adhanom Ghebreyesus forstöðumaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar hefur boðað til fundar með nefnd stofnunarinnar um neyðartilfelli í heilbrigðismálum. Fundurinn verður á föstudaginn í Genf í Sviss og verður þar metið hvort lýsa þurfi yfir alþjóðlegu neyðarástandi.