Skimun Mat­væla­stofnunar, eða MAST, fyrir sjúk­dóms­valdandi bakteríum í kjöti sýnir að bakterían STEC E. coli finnst bæði í kjöti af ís­lensku sauð­fé og naut­gripum. Skimunin fór fram á vegum Mat­væla­stofnunar, heil­brigðis­eftir­lits sveitar­fé­laga og at­vinnu­vega- og ný­sköpunar­ráðu­neytisins. Til­gangur hennar var að kanna stöðu sjúk­dóms­valdandi ör­vera í af­urðum þegar neytandinn fær þær í hendur, og fór því sýna­takan fram í verslunum. Tekin voru um 600 sýni af kjöti af sauð­fé, naut­gripum, svínum og kjúk­lingum, af inn­lendum eða er­lendum upp­runa frá mars til desember í fyrra, árið 2018.

Í til­kynningu frá MAST kemur fram að um sé að ræða fyrsta skipti þar sem skimað eð E. coli í kjöti af sauð­fé og naut­gripum hér­lendis. Þar kemur einnig fram að hvorki greindust salmonella né kampý­lóbakter greindust í svína- og ali­fugla­kjöti að undan­skilinni salmonellu sem fannst í einu sýni af svína­kjöti. Segir að það sé ljóst að mikill árangur hafi náðst með for­vörnum og eftir­liti í eldi og við slátrun ali­fugla og svína.

STEC (Shiga Toxin-producing Escher­ichia Coli) er eitur­myndandi tegund E. coli. STEC getur valdið al­var­legum veikindum í fólki en al­geng sjúk­dóms­ein­kenni eru niður­gangur en einnig getur sjúk­dómurinn leitt til nýrna­skaða. Fólk getur smitast af STEC með menguðum mat­vælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða um­hverfi menguðu af saur þeirra.

Hluti af náttúrulegri örveruflóru

Niður­stöður skimunar fyrir STEC benda til að shiga­toxín myndandi E. coli sé hluti af náttúru­legri ör­veru­flóru ís­lenskra naut­gripa og sauð­fjár. STEC fannst í 30 prósent sýna af lamba­kjöti og 11,5 prósent sýna af naut­gripa­kjöti. Ljóst er að rann­saka þarf betur STEC í kjöti og skerpa þarf á fyrir­byggjandi að­gerðum í slátur­húsum og kjöt­vinnslum til að minnka líkur á að STEC berist í kjötið.

Segir að hrein­leiki gripa skiptir hér máli og því þurfi að reyna að koma í veg fyrir að ó­hreinum gripum sé slátrað í slátur­húsi.

Að lokum segir að neyt­endur geti sjálfir dregið veru­lega úr á­hættu smits vegna bakteríanna með því að gegnu­melda kjöt fyrir neyslu og gæta að kross­mengun á milli tegunda.

Megnið af E. coli er á yfir­borði kjöts og drepst því við steikingu eða grillun á kjöt­stykkjum, en bakteríurnar dreifast um allt kjötið þegar það er hakkað. Því er mikil­vægt fyrir neyt­endur að forðast kross­smit við mat­reiðslu og gegnum­steikja ham­borgara og annað hakkað kjöt.

Til­kynning og skýrsla Mat­væla­stofnunar er að­gengi­leg hér á heima­síðu stofnunarinnar.