Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, sendi í dag fyrirspurn á Skipulags- og samgönguráð varðandi lokun akreinar á Sæbraut þar sem nú stendur meðal annars yfir vinna við umferðareyjur og hellulögn á svæðum fyrir gangandi vegfarendur.

Fyrsti fundur ráðsins var haldinn í dag að loknum sumarfríum.

„Ég setti inn formlega fyrirspurn á fundi dagsins um hvers vegna svona er staðið að verki,“ segir Baldur við Fréttablaðið. „Þetta er óásættanlegt. Ég hef fylgst með þessu undanfarnar vikur og séð að það er alveg makalaust að valda svona miklum töfum algerlega að óþörfu. Það er það sem ég er benda á með fyrirspurninni.“

Baldur birti jafnframt færslu á Facebook síðu sinni í dag þar sem hann lætur fylgja mynd af vörubrettunum sem standa á akreininni og spyr:

„Dýrustu gangstéttarhellur í heimi? Dýrasta geymslusvæði í heimi?“

„Það vakti furðu mína að sjá þarna í fyrstu eitt bretti standa með steinhellum á og akreinina að öðru leyti algjörlega fría og ekkert verið að vinna í kringum þetta svæði.“

Baldur fylgdist því með framkvæmdunum undanfarnar vikur og furðar sig á lokuninni sem hefur valdið talsverðum umferðartöfum á Sæbrautinni.

„Ég fullyrði það að lokunin er búin að vera í að minnsta kosti fjórar vikur og mögulega lengur og hefur hún verið að óþörfu.“

„Fyrirspurnin er sett fram í þeirri von um að brugðist verði við henni tafarlaust og ég vænti svara í næstu viku,“ segir Baldur.