Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins mun það taka 132 ár að ná jafnrétti kynjanna. Dýrtíðin og orkukreppan sem nú gengur yfir kemur verr niður á konum en körlum.

Saadia Zahidi, framkvæmdastjóri hjá ráðinu, benti á að konur hefðu frekar misst atvinnuna í faraldrinum og velferðarinnviðum, á borð við dagvistun barna og hjúkrunarheimilum hefði hrakað sem kæmi verr niður á konum. Mikilvægt væri að koma konum aftur út á vinnumarkaðinn, annars væri ávinningur undanfarinna áratuga til einskis.

Ráðið byggir sína greiningu á fjórum þáttum, það er launakjörum og efnahag, menntun, heilbrigðisþjónustu og stjórnmálum.

Efst á lista 146 landa trónir Ísland og hinar Norðurlandaþjóðirnar eru allar ofarlega þegar kemur að jafnrétti kynjanna nema Danmörk í 32. sæti. Tvö Afríkuríki eru á meðal efstu tíu, Rúanda í 6. sæti og Namibía í 8. sæti. Bandaríkin eru í 27. sæti, Kína í 102. og Japan í 116. sæti. Á botninum eru Afganistan, Pakistan og Lýðveldið Kongó.