Þór Bergsson, fyrrverandi dyravörður á Hverfisbarnum, hefur verið sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann var ákærður fyrir að mismuna gegn trans konu.

Dómur féll í dag og Sæborg Ninja Urðardóttir, sem taldi dyravörðinn hafa mismunað gegn sér, greinir frá þessu á Twitter.

Dyravörðurinn þvertók fyrir að hafa hent Sæborgu Ninju út af staðnum vegna kynvitundar hennar og sagði ástæðuna vera að hún uppfyllti ekki viðmið skemmtistaðarins um klæðaburð.

Kallaði hana gaur í kerlingapels

Í aðalmeðferð málsins snemma í lok nóvember sagði lykilvitni í málinu, Ída Finnbogadóttir, að dyravörðurinn hafi rangkynjað Sæborgu þar sem hún stóð fyrir utan á reykingasvæði og neitað að hleypa henni aftur inn vegna kynvitundar hennar.

Dyravörðurinn hafi sagt við hana: „Ég ætla ekki að hleypa þessum gaur í kerlingapels inn á staðinn“.

Þór sagðist ekki hafa neinar skoðanir á kynvitund fólks og neitaði því að hafa kallað Sæborgu karl í kerlingapels.

„Ég hef engar neikvæðar skoðanir á trans fólki eða samkynhneigðum eða neinum, allir verða að fá að vera fullkomin útgáfa af sjálfum sér,“ sagði hann, aðspurður um hvort hann hefði fordóma gegn trans fólki.

Stærsti óttinn varð að veruleika

Sæborg segir að þetta kvöld hafi einn hennar stærsti ótti við að vera meðal fólks orðið að veruleika. „Mér leið illa að þetta væri þungamiðjan í að afmæli systkinis míns hafi verið eyðilagt,“ sagði hún og tók fram að hún hefði ekki þorað að fara út úr húsi í langan tíma eftir þennan atburð.