Þónokkur fjöldi ökumanna var stöðvaður víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að um klukkan hálf sex í gær hafi bíll verið stöðvaður í hverfi 108 þar sem tvö börn, 14 mánaða og fimm ára, voru laus. Enginn öryggisbúnaður var fyrir börnin og yfirgaf móðirin bílinn að enda og ætlaði með börnin í strætó.

Einn var handtekinn klukkan 20:19 grunaður um líkamsárás, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og aka sviptur ökuréttindum. Hann var vistaður í fangageymslu en fram kemur í dagbók lögreglu að ekki sé vitað um ástand brotaþola.

Tilkynnt var um aðra líkamsárás rétt fyrr klukkan átta í gærkvöldi i Hafnarfirði. Sá var einnig vistaður í fangageymslu. Tilkynnt var um þá þriðju í nótt við veitingastað í hverfi 101 þar sem dyravörður er grunaður um að hafa kýlt mann ítrekað í höfuðið.

Þá var tilkynnt um slys um eittleytið í nótt þar sem maður féll af rafhlaupahjóli og rotaðist. Hann var með höfuðáverka og var meðvitundarlaus. Í dagbók lögreglu kemur fram að hann sé grunaður um að hafa reynt að stjórna hjólinu undir áhrifum.