Fær­eyingar hafa verið harð­lega gagn­rýndir af al­þjóð­legum dýra­verndunar­sinnum eftir að rúm­lega fjór­tán hundruð tann­hvalir af höfrunga­ætt voru veiddir í Skála­firði við Austur­ey síðast­liðinn sunnu­dag. For­maður fær­eyska hval­veiði­ráðsins segir Fær­eyingum sjálfum mjög brugðið.

Fjöl­margir fjöl­miðlar víða um heim hafa fjallað um veiðina og reiði dýra­verndunar­sinna, þar á meðal BBC, The Guar­dian og Was­hington Post.

Dýra­verndundar­sam­tökin Sea Shepherd, sem hafa barist fyrir því að Fær­eyingar hætti grinda­drápi, segja veiðarnar síðasta sunnu­dag hafa verið stærsta staka drápið í sögu Fær­eyja og birtu sláandi myndir og mynd­bönd af drápinu á vefsíðu sinni.

Aðal­lega var um að ræða leiftur, lítinn og grann­vaxinn tann­hval af höfrunga­ætt. Að meðal­tali veiða Fær­eyingar um 600 grind­hvali á ári en mun færri leiftrar, að­eins veiddust 35 slíkir á síðasta ári.

Engdust um á ströndinni

Veiðarnar fara þannig fram að hvölunum er smalað á bátum inn á grynningar þar sem veiði­menn vaða svo út í sjóinn og drepa þá með sér­til­gerðum hval­hnífum. Fjöldi fólks tekur þátt í veiðunum sem eru af mörgum taldar vera mikil­vægur hluti fær­eyskrar menningar. Þeir sem eru fylgjandi veiðunum segja þær einnig vera sjálf­bærar en dýra­verndunar­sinnar segja þær bæði ó­nauð­syn­legar og ó­mann­úð­legar.

Mörgum Fær­eyingum var þó einnig of­boðið vegna veiðanna á sunnu­dag og skrifaði einn aðili at­huga­semd við frétt fær­eyska Kring­varpsins um drápið að honum yrði ó­glatt af sjóninni einni saman.

Heri Peter­sen, sem fer fyrir veiði­ráði grinda­drápsins í Skála­firði sagði að allt of margir höfrungar hefðu verið reknir inn á fjörur þar sem of fáir veiði­menn biðu þeirra, sem varð til þess að höfrungarnir þjáðust meira en þörf var á:

„Ég er í á­falli vegna þess sem gerðist. Höfrungarnir lágu á ströndinni og engdust um allt of lengi áður en þeir voru drepnir,“ sagði hann í við­tali við staðar­fjöl­miðill.

Verður mögulega hent í ruslið

Hans Jacob Herman­sen, fyrrum for­maður fær­eyska hval­veiði­ráðsins sagði í við­tali við Kring­varpið að honum væri mjög brugðið vegna at­viksins sem myndi „gera að engu alla þá vinnu sem hefur verið gerð til að við­halda grinda­drápinu“.

Hval­kjötinu sem fæst með grinda­drápi er vana­lega deilt á milli fjöl­skyldna veiði­mannanna en einn heima­maður sagði í við­tali við Ekstra Bladet að það væri enginn leið fyrir fólkið að nýta svo mikið kjöt.

„Ég myndi giska að flestum höfrungunum verði annað­hvort hent í ruslið eða í holu í jörðu niðri. Við ættum að hafa kvóta fyrir hvert svæði og við ættum ekki að drepa höfrunga,“ sagði hann.