Rannsókna- og dýraverndunarsamtökin Environmental Investigation Agency, eða EIA, hafa óskað eftir því við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að þær hvalveiðar sem fyrirhugaðar eru í sumar verði stöðvaðar. Sendi Clare Perry, sem stýrir herferðum í málefnum hafsins, Katrínu bréf þess efnis á fimmtudag.

Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., tilkynnti í mars að hvalveiðar myndu hefjast að nýju í sumar. En fjögurra ára hlé hefur verið á hvalveiðum, að hans sögn vegna togstreitu milli útgerðarinnar og Matvælastofnunar. Alls má veiða 200 hrefnur og 200 langreyðar í lögsögu Íslands á ári. Reiknað er með að veiðarnar hefjist í júní og standi fram í september.

EIA voru stofnuð árið 1984 af hinum breska Dave Currey, eftir að hann hafði séð aðfarir norskra hvalveiðimanna. Síðan þá hafa samtökin stækkað og víkkað út sína starfsemi og taka á náttúruverndarmálum á landi líka. Að eigin sögn segjast þau rannsaka, upplýsa og reyna að koma í veg fyrir glæpi gegn náttúrunni og dýralífi. Höfuðstöðvarnar eru í London og Washington.

„Það er eitthvað hrikalega rangt við að einn einstaklingur geti boðið heimsálitinu birginn til að drepa þessar stórkostlegu skepnur á sama tíma og þörfin til að vernda stóra hvali er meiri en nokkru sinni fyrr,“ sagði Clare í yfirlýsingu fyrir hönd samtakanna og átti þá við Kristján.

Einnig segir að árið 2011 hafi EIA ljóstrað upp um það að Kristján hafi sjálfur komið að stofnun fyrirtækis í Japan til að flytja inn hvalkjöt til að reyna að skapa neytendamarkað þar. „Tveimur árum seinna komum við upp um það að íslenskt hvalkjöt væri notað til að búa til gæludýranammi,“ segir í yfirlýsingunni. Í krafti fjármuna sinna gæti Kristján haldið niðri verðinu. Samkvæmt reikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé virði hvers hvals fyrir Ísland, vegna ferðaþjónustu og hvalaskoðunar, 2 milljónir dollara, eða um 260 milljónir króna.

Á mánudag skrifaði Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, grein í Morgunblaðið þar sem hún sagði fátt styðja hvalveiðar og að þær hefðu litla efnahagslega þýðingu fyrir Ísland. Hversu lítil nýtingin hafi verið á kvótanum undanfarin ár sýni hversu óarðbærar veiðarnar séu og líklega sé af þeim tap. Að öllu óbreyttu verði engin hvalveiði heimil frá árinu 2024.