Í ljósi þess fjölda einka­þota sem lenda á Reykja­víkur­flug­velli nú í sumar tók Frétta­blaðið til skoðunar þann kostnað sem hlýst af því að lenda einka­þotu á flug­vellinum. Í út­reikningum var notuð gjald­skrá Isavia sem gildir um flug­velli utan Kefla­víkur­flug­vallar.

Sé Cessna Cita­tion M2 vél tekin sem dæmi, einka­flug­vél í minni kantinum, með far­rými fyrir sjö far­þega, kostar 35.485 krónur að leggja slíkri vél á Reykja­víkur­flug­velli í fimm sólar­hringa.

Miðað er þá við að flug­vélin sé í há­marks­þyngd þegar hún lendir og því um há­marks­gjald fyrir slíka vél að ræða. Sé um stærri flug­vél að ræða er kostnaðurinn hærri. Ef færri far­þegar, minna elds­neyti eða minni far­angur er í vélinni myndi það lækka kostnað við lendinguna og geymslu þar sem gjald­skrá Isavia reiknast aðal­lega út frá þyngd flug­vélar og fjölda far­þega.

Til saman­burðar má nefna að ef bif­reið er lagt í bíla­kjallaranum undir Hafnar­torgi í mið­borg Reykja­víkur er gjaldið 440 krónur fyrir hvern klukku­tíma milli klukkan 8.00 og 20.00 en 210 krónur frá 20.00 til 8.00.

Ef miðað er við að bíllinn standi í bíla­kjallaranum í fimm sólar­hringa kostar það 39.000 krónur.

Frétta­blaðið bar út­reikninga sína undir Isavia sem stað­festi að þeir væru réttir.