Ragnhildur Jóhannsdóttir vill vara kattareigendur í Norðurmýrinni við aðila sem stundar dýraníð í hverfinu. Hana grunar að kötturinn hennar, Esja, hafi verið numinn á brott og pyntaður.

Esja kom heim í gær, eftir að hafa verið týnd í tæpan sólarhring, í mjög slæmu ástandi. Hún var öll í skít og hlandi þegar hún kom heim sem Ragnhildi þykir gefa til kynna að hún hafi verið innilokuð í litlu rými, svo sem plastpoka.

Ragnhildur segir það skýrt að það er ekki sannað hver tók köttinn, en þau hafi einn grunaðan úr hverfinu.

„Fyrir mér er það klárt mál að þetta er af mannavöldum hvernig kötturinn kemur heim. Svona gerist ekki þegar kettir eru úti á vappi,“ segir Ragnhildur í sambandi við Fréttablaðið.

Hún segir að málið sé til skoðunar hjá Matvælastofnun (MAST) sem fer með öll mál er varða illa meðferð á dýrum.

Hún segir að fólk í Norðurmýrinni hafi verið upplýst áður um það að eitthvað misjafnt sé í gangi en eftir að kötturinn kom heim í svo slæmu ástandi í gær ákvað hún að birta um það færslu á Facebook til að vekja máls á málinu aftur.

Hafa vitað af dýraníðingnum

„Um nokkurt skeið núna hafa íbúar Norðurmýrar vitað af því að það væri dýraníðingur í hverfinu. Hann hefur meðal annars verið gripin glóðvolgur við það að reyna að stela ketti en lítið annað hefur verið sannað á manninn, en hann hefur líka verið gripinn með ólar af köttum í höndunum sem voru útklóraðar,“ segir hún í færslunni sem hún birti á Facebook.

Hún segir að undanfarnar vikur hafi komið upp nokkur atvik sem henni þyki undarleg og nefnir sem dæmi að ólin hennar Esju hafi týnst og að glugginn sem kettirnir nota hafi lokast, en hann lokist ekki einu sinni í mjög slæmu veðri.

„Veðrið var gott og þurrt en ástandið á kettinum var vægast sagt skelfilegt og þetta var engan vegin köttur sem gæti hafa verið í tæplega sólarhrings ævintýri. Hún var í miklu sjokki, mjálmaði ekki en vanalega er hún mjálmandi út í eitt,“ segir Ragnhildur og bætir við:

„Hún var svo úrvinda að hún gat ekki þvegið sér, hvorki borðað né drukkið og dró sig alveg í hlé inn i bælið sitt og svaf. Kettirnir okkar eiga það til að fara á flakk og koma aftur í misgóðu ástandi eins og gengur, en aldrei höfum við séð eins illa útleikinn kött eftir hvarf eins og hana Esju í gær og erum sannfærð um að hún hafi horfið af mannavöldum og verið haldið einhvers staðar.“

Esja var ekki í góðu ástandi þegar hún kom heim.
Mynd/Aðsend

Heimilt að kalla til lögreglu

Á heimasíðu MAST segir að héraðsdýralæknum eða fulltrúum Matvælastofnunar sé skylt að kanna hvort ábendingar um illa meðferð á dýrum eigi við rök að styðjast og að lögregla sé kölluð til ef þess þarf. Sé um minni háttar brot á lögum eða reglugerðum að ræða, er eigendum eða umsjónarmönnum gefinn frestur til að bæta úr innan tiltekins tíma. Ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt er Matvælastofnun heimilt að beita þvingunaraðgerðum eða svipta umráðamann dýra vörslu þeirra. Ekkert segir í umfjöllun um illa meðferð á dýrum um hvað eigi að gera ef dýrið er beitt illri meðferð af einhverjum ótengdum því.

„Ég er logandi hrædd um kettina mína núna, ég get alveg viðurkennt það. Það er rosalegt ástandið sem var á dýrinu í gærkvöldi,“ segir Ragnhildur sem hefur verið heima með Esju í allan dag.

„Hún var alveg eyðilögð og í sjokki í gær. Það var hrikalegt. Það fer ekkert á milli mála að það kom eitthvað stórkostlegt fyrir þó maður hafi engar sannanir fyrir því,“ segir Ragnhildur.

Hún segir að hún sé með þrjá ketti og sá elsti rápi mest af þeim en að það sé erfitt að halda þeim öllum inni eða gæta þess að þau séu komin heim ef hún þarf að fara út.

„Það er erfitt að stýra þessu með þrjá ketti og maður á ekki að þurfa að vera í þessari aðstöðu að óttast um dýrin sín þegar þau fara út,“ segir Ragnhildur að lokum. 

TRIGGER WARNING - Dýraníð. Um nokkurt skeið núna hafa íbúar Norðurmýrar vitað af því að það væri dýraníðingur í...

Posted by Ragnhildur Jóhanns on Tuesday, 30 March 2021