Skýrslan er byggð á rannsókn þeirra á blóðmerahaldi á Íslandi árin 2019 til 2021. Dýraverndarsinnar á vegum samtakanna notuðu faldar myndavélar til að taka myndskeið og myndir af blóðtöku og ræddu við bændur, lögmenn, fulltrúa Matvælastofnunar (MAST) og Ísteka.

Samtökin AWF hafa rannsakað blóðmerahald á Íslandi síðastliðin tvö ár og skráð misalvarleg tilvik um möguleg brot á lögum um dýravelferð á 40 sveitabæjum á Norður- og Suðurlandi.

Hundar sjást glefsa og bíta í hófa og tagl mera.
Mynd: AWF

MAST hefur til rannsóknar myndband sem samtökin birtu nú á dögunum sem sýnir blóðtöku úr fylfullum hryssum hér á landi.

Stofnunin segir að verklag sem þar kemur fram virðist stríða gegn starfsskilyrðum starfseminnar sem eigi að tryggja velferð hryssanna og lítur málið alvarlegum augum.

MAST segir eftirlit með blóðtöku vera áhættumiðað og í forgangi hjá stofnuninni en sjálf blóðtakan er á ábyrgð líftæknifyrirtækisins Ísteka ehf. sem nýtir afurðina.

Fréttablaðið hefur skýrsluna undir höndum en í henni kemur fram að almennt sé of mikið magn af blóði tekið úr merum miðað við stærð þeirra og þyngd. Leyfilegt er að taka fimm lítra af blóði úr meri á hverri viku.

Ísteka segir þetta gert fimm sinnum yfir tvo til þrjá mánuði en dýraverndarsamtökin skráðu átta til tíu skipti á bæjum sem þau fylgdust með.

Myndbönd voru tekin af bændum á nokkrum bæjum að hýða merarnar með svipum, járnstöngum og viðarfjölum. Hundar sjást glefsa og bíta í hófa og tagl mera. Í öllum þessum tilvikum var dýralæknir á svæðinu sem hvorki tilkynnti né reyndi að stöðva illa meðferð á dýrunum.

„Dýralæknir á vegum Ísteka sér hundinn elta merina en biður ekki bóndann um að fjarlægja hundinn. Sami dýralæknir skerst ekki í leikinn þegar hann sér bóndann eða vinnufólkið beita merina ofbeldi,“ segir í skýrslunni.

Hesturinn virðist óstyrkur við blóðtöku.
Mynd: AWF