Dýra­dagurinn verður í fyrsta skipti haldinn há­tíð­legur á Ís­landi á morgun, þann 22. maí 2019, á al­þjóð­legum degi líf­breyti­leika. Til að fagna deginum verður lit­rík skrúð­ganga barna og ung­menna sem hefur það að mark­miði að vekja at­hygli á um­hverfis­málum og sér­stak­lega mál­efnum hafsins.

Ísak Ólafs­son er einn skipu­leggj­enda dagsins. Hann segir í sam­tali við Frétta­blaðið að undir­búningur dagsins hafi gengið mjög vel. Allt frá því í apríl hafa þau unnið að því að undir­búa daginn meðal annars með því að bjóða börnum í grímu­gerð víða í Reykja­vík en á deginum sjálfum munu börn klæða sig í dýrabúninga og setja á sig grímur sem þau hafa sjálf búið til.

„Í þessari viku og síðustu viku hafa börnin fengið fræðslu í frí­stund og búið til grímur og þeim sagt til hvernig dagurinn virkar,“ segir Ísak.

Hann segir að þau börn sem hafi fengið fræðslu um daginn hafi tekið af­skap­lega vel í Dýra­daginn þegar hann hefur verið út­skýrður fyrir þeim.

„Þetta er auð­vitað í fyrsta skipti sem hann er haldinn hér þannig fólk áttar sig ekki al­menni­lega á því hvernig þetta er, en allir sem við höfum talað við eru mjög spennt,“ segir Ísak.

Þemað málefni hafsins

Þemað í ár er mál­efni hafsins og taka börnin sem þátt í því að læra um plast­mengun í hafi, lofts­lags­breytingar og líf­breyti­leika í gegnum við­burðina sem verða haldnir. Þá hafa börnin, í takt við þemað, lagt á­herslu á að búa til grímur fyrir dýr sem búi í hafinu eða nærri því. Sér­stök á­hersla hefur verið lögð á tvö dýr sem eru á vá­lista hér á Ís­landi og búa nærri hafinu, en það eru land­selurinn og lundinn, en þau eru á vá­lista spen­dýra og fugla og eru bæði metin í bráðri hættu.

Ísak segir að það verði að bregðast við því og segir margt hægt að gera. Til að byrja með þurfi að fræða fólk svo það sé með­vitað um stöðu mála.

„Ef fólk veit ekki af þessu þá mun ekki gerast. Svo ný­verið voru búin til frið­lýst svæði í Reykja­vík fyrir land­selinn. Það hjálpar til dæmis,“ segir Ísak.

Ísak hefur undanfarna daga farið ásamt Rannveigu Magnúsdóttur, verkefnastjóra hjá Landvernd, í frístundamiðstöðvar og kynnt Dýradaginn fyrir börnunum. Fjörlegar umræður áttu sér stað í gær
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gott að taka frí frá vinnu og labba í Grasagarðinum

Ísak býst við góðri þátt­töku í Dýra­deginum á morgun. Hann segir að nokkrar frí­stunda­mið­stöðvar ætli að taka þátt og ein­hverjir leik­skólar. Hann býst við því að allt að 200 börn muni taka þátt. Það þurfi þó alls ekki að til­kynna þátt­töku, því við­burðurinn er öllum opinn.

„Þetta er opinn við­burður þannig ef ein­hver vill taka sér frí frá starfi og labba í Grasa­garðinum er öllum opið.“

Dýra­dagurinn er úr hug­mynda­smiðju Jane Goodall og segir Ísak að vegna lítils fyrir­vara hafi hún því miður ekki getað komið og tekið þátt í deginum í ár en segir að það sé stefnt á að hún komi á næsta ári og taki þátt.

Dag­skrá Dýra­dagsins hefst klukkan 14 á morgun með því að þátt­tak­endur klæða sig í búninga og safnast saman á skóla­lóð Laugar­nes­skóla þar sem að gangan hefst.

14:00-14:30 Nem­endur klæða sig í búninga og safnast saman á skóla­lóð Laugar­nes­skóla

14:30-15:00 Gengið í skrúð­göngu inn í Grasa­garðinn (götum verður lokað tíma­bundið)

15:00-15:30 Dag­skrá í Grasa­garðinum, stutt á­vörp, hug­vekja frá nem­endum og skemmtun.

Sam­starfs­aðilar í verk­efninu eru Land­vernd, Reykja­víkur­borg, Grasa­garður Reykja­víkur, Fjöl­skyldu- og hús­dýra­garðurinn, Fugla­vernd, Nor­ræna húsið, Barna­menningar­há­tíð, Mynd­lista­skóli Reykja­víkur og Ragn­heiður Maí­s­ól Sturlu­dóttir, lista­kona.

Hægt er að kynna sér viðburðinn nánar hér á Facebook.