Hundaeftirlit Reykjavíkur verður lagt niður og málefni katta flutt frá meindýraeftirlitinu miðað við áform borgarinnar um stofnun miðlægrar Dýraþjónustu Reykjavíkur eða DÝR. Minnihlutinn í borgarráði segir DÝR tímaskekkju og lýsa fordómum.

Borgarstjóri lagði fram tillögu á fundi borgarráðs í gær um undibúning að stofnun DÝR. Sameinuð verði á einum stað öll þjónusta við gæludýr, mun DÝR annast utanumhald og umsýslu vegna skráningar dýra, fræðslu og upplýsingagjöf um gæludýr, dýrahald í þéttbýli og þær reglur sem um það gilda, föngun og vistun dýra í vanskilum, móttöku dýra í hremmingum, samskipti við aðrar stofnanir innan sem utan borgarinnar, dýraeigendur og hagsmunasamtök þeirra, segir í tillögunni. Einnig á að bæta umhverfi og þjónustuvið dýr og dýraeigendur. Starfsstöð DÝR verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Mynd/ Gunnar V. Andrésson / GVA

Meira en 6 milljóna kostnaður

Áætlaður viðbótarkostnaður vegna DÝR er áætlaður 6 milljónir króna og í honum felst samstarfs við frjáls félagasamtök - styrktarsjóð og þjónustusamninga og kostnaður vegna kynningarmála um nýju þjónustustöðina. Í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs er bent á að viðbótarkostnaðurinn verði líklega meiri en 6 milljónir. Kostnaður muni verða vegna breyttrar hundaskráningar og lækkun hundaeftirlitsgjalds og innleiðing og nýtt skráningakerfi muni kosta talsvert.

Haustið 2019 var skipaður stýrihópur til að gera tillögur um hvernig haga skuli þjónustu borgarinnar við gæludýr. Hópurinn skilaði skýrslu haustið eftir, 2020. Megintillagan var að sameina á einum stað starfsemi borgarinnar vegna þjónustu við gæludýr og villt og hálfvillt dýr í neyð í samræmi við skyldur sveitarfélaga. Málið verður endanlega afgreitt í bæjarstjórn. Stofnaður verður nú starfshópur til að undirbúa stofnun DÝR.

Hundaskráning tímaskekkja

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bentu á að hundaeigendur hafi ekki notið þjónustu í skiptum fyrir hundaeftirlitsgjald borgarinnar og því óréttmæt gjaldtöka á ferð auk þess sem skráning hunda innan borgarmarkanna sé tímaskekkja, enda önnur dýr ekki sérstaklega skrásett og benda á aðrar borgir.

„Örmerkjaskráningar hundaeigenda ættu að fela í sér nægjanlega skráningu, en í Bretlandi og á öðrum norðurlöndum hafa sveitarfélög lagt niður skráningarskyldu eftir að landlægir örmerkjagagnagrunnar komu til sögunnar. Ekki þótti svara kostnaði að ganga eftir skráningum í sveitarfélagi, auk þess sem tvískráning þótti óþörf. Hið opinbera þarf ekki að sinna sérstöku eftirliti eða skrásetningum hunda enda hafa borgarbúar og einkaframtak tekið sér þessi verkefni í hendur með farsælum hætti hérlendis“.

Mynd/Ernir Eyjólfsson

Fordómar gagnvart hundaeigendum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins nefndi að skráning hunda hjá sveitarfélagi þjóni engum tilgangi enda allir hundar skráðir í landlægan gagnagrunn. „Rök borgarinnar fyrir því að hafa fullan aðgang að þeim gagnagrunni til að vita hvar hver einasti hundur eigi heima, endurspeglar fordómafullt viðhorf gagnvart hundaeigendum,“ segir í bókun fulltrúans og að samráð við hagsmunaaðila hafi ekkert verið.

Þá lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að reglugerð um hundahald í Reykjavík verði breytt með þeim hætti að hundahald verði formlega leyft í Reykjavík.