Vegagerðin mun fara í stóra dýpkunarframkvæmd í Grynnslunum í Hornafirði, sem mun kosta á bilinu 150 til 300 milljónir króna, án þess að hafa fullvissu um að hún beri árangur. Vegna sands komast stærri skip ekki að höfninni.

„Þetta er mjög stórt mál fyrir bæjarfélagið. Þess vegna er verið að ræða um svona stóra aðgerð án þess að hafa fullvissu um að hún skili árangri,“ segir Fannar Gíslason, forstöðumaður siglingadeildar Vegagerðarinnar. Segir hann þetta vera dýrt rannsóknarverkefni.

Hornafjarðarhöfn og Grynnslin, sem er innsiglingin að henni, eru erfið vegna veðurfarslegra aðstæðna. Sunnan við landið eru suðvestanáttir ríkjandi, sem leiðir til sandflutnings til austurs. Á nokkurra ára fresti kemur vetur með austlægum áttum sem hjálpar ekki til.

Í fyrra lauk framkvæmdum á sandfangara í Einholtsklettum sem kostuðu 250 milljónir króna. Hann átti að taka sandinn og koma honum á meira dýpi. Fannar segir fangarann ekki nógu langan og ekki taka allan sandinn. Nú sé verið að ræða um hvað sé hægt að gera til langrar framtíðar, það er að lengja garðinn, eða gera meiri dýpkanir á hverju ári.

„Nú erum við að undirbúa að dýpka Grynnslin svolítið hraustlega og gá hverju það skilar,“ segir hann og horfir til næsta vors eða sumars. Það hafi verið gert fyrir tíma sandfangarans en þá hafi fyllst upp á aðeins einum mánuði.

Útgerðin, Skinney-Þinganes, þarf að kaupa stærri skip til þess að vera samkeppnishæf. En það eru stóru uppsjávarskipin, sem veiða loðnu, síld og makríl, sem komast illa inn í höfnina sem og stóru flutningaskipin. Bæði fiskiskip og flutningaskip hafa tekið niðri í Grynnslunum á undanförnum tuttugu árum, brotið stýri og orðið stjórnlaus.

„Þetta er ein helsta ástæðan fyrir að við fáum ekki mikið af skemmtiferðaskipum. Þau hafa sýnt því áhuga að koma en treysta sér ekki í okkar höfn,“ segir Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar.

Vegagerðin ber ábyrgð á dýpkunarframkvæmdunum en þó fellur ávallt einhver kostnaður á sveitarfélagið. Einnig hefur það orðið af tekjum vegna þessara aðstæðna.

„Á sama tíma erum við líka að glíma við landris sem ýtir undir vandamálið,“ bendir Matthildur á, en þessir tveir þættir eru samverkandi. Landið rís um sentimetra á ári, vegna bráðnunar Vatnajökuls. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur hefur bent á að ef land rís mikið meira geti fjörðurinn orðið ófær.

Bæði Matthildur og Fannar eru sammála um að ávallt verði dýpkunar þörf í Hornafirði. Árlega er dýpkað í höfninni um 40 þúsund rúmmetra á ári og Grynnslin hafa verið tekin af og til.

„Núna stefnir í að það verði gefinn út ansi hressilegur loðnukvóti og því væri súrt að geta ekki sinnt veiðunum sem skyldi,“ segir Matthildur.

hornafjörður-matta-2018.jpg

Matthildur Ásmundsdóttir bæjarstjóri Hornafjarðar