Alma D. Möller landlæknir var í dag bólusett gegn COVID-19 með bóluefni Pfizer.

Rúmlega ár er liðið frá því að COVID-19 fór að láta sér kræla á Íslandi og hefur Alma staðið í forgrunni að upplýsa þjóðina um COVID-19.

Líkt og í síðustu viku, þegar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fékk bóluefni, mátti heyra dynjandi lófatak um Laugardalshöllina þegar Alma fékk sprautuna. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Ríkislögreglustjóra, sem einnig er kenndur við þríeykið, hefur ekki verið bólusettur en hann greindist sjálfur með COVID-19 og er því síðastur á lista ásamt mörgum öðrum.

Alma mætti rétt fyrir hálf ellefu í morgun í Laugardalshöllina og færði hjúkrunarfræðingum bakkelsi í tilefni dagsins.

Alma fékk bóluefni Pfizer eins og allir aðrir sem mættu í bólusetningu í Laugardalshöll í dag.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Met slegið

Met verður sennilega slegið í Laugardalshöllinni dag með fjölda bólusetninga en þessa viku verða tæplega 40 þúsund einstaklingar bólusettir; 14.000 manns fá Pfizer bóluefnið, 6.500 manns fá Janssen bóluefnið og 15.000 fá bóluefni AstraZeneca og 4.000 fá Moderna bóluefnið.

Þau sem hafa fengið boð í bólusetningu er ýmist starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, heilbrigðisstarfsmenn, einstaklingar með undirliggjandi langvinna sjúkdóma og einstaklingar í félagslega- og efnahagslega erfiðri stöðu og aðrir.

Löng röð fyrir utan Laugardalshöll: Allir sem mæta í bólusetningu í dag fá bóluefni Pfizer.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson