Krabbameinsleit tók minna högg á sig í faraldrinum hér á landi en í Skandinavíu. Þetta kemur fram í nýrri samanburðarrannsókn. Staðan var áberandi verst í Svíþjóð.

Rannsóknin náði til ársins 2020 og sýnir dýfu krabbameinsgreininga um vorið alls staðar nema í Færeyjum, en faraldurinn barst seint þangað. Í maí mánuði það ár fækkaði greindum krabbameins­tilfellum á Íslandi um 17 prósent. Staðan var aðeins verri í Noregi og Danmörku en í Svíþjóð fækkaði greiningum um 31 prósent.

Laufey Tryggvadóttir, forstöðumaður Rannsóknar og skráningaseturs Krabbameinsfélagsins, segir lækkunina eiga sér skýringu. „Til að byrja með var fólk hrætt, var heima hjá sér og þorði jafnvel ekki að leita til læknis þó það væri með einkenni,“ segir hún. Fækkun greininga sást í mars, apríl og maí.

Það sem gerðist eftir það hér á landi var að greiningum fjölgaði aftur og náðu að bæta upp fækkunina um vorið. Það sama er ekki hægt að segja um Svíþjóð þar sem heildarfækkunin á árinu 2020 var 6,2 prósent. Í Finnlandi var einnig fækkun um 3,6 prósent.

„Greiningum fjölgar með hverju árinu. Bæði er okkur að fjölga og að eldast. Áhættan er ekki að aukast,“ segir Laufey, um hvernig staðan er í venjulegu árferði. Laufey segir óreiðu í heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð skýra að ekki náðist eðlilegt nýgengi. Þar voru langtum minni takmarkanir vegna faraldursins og dánartíðni tíföld miðað við Ísland. „Aðgerðirnar hér voru strangari en í Svíþjóð og passað upp á að heilbrigðiskerfið færi ekki á hliðina. Við héldum vel á spöðunum,“ segir hún.

„Þegar greiningum fækkar höfum við áhyggjur af því að meinin greinist ekki fyrr en á hærri stigum. Þá eru horfurnar líka heldur verri,“ segir Laufey, aðspurð um hvaða áhrif það hafi að greiningum fækki. Að greina krabbamein sem fyrst skiptir miklu máli. Laufey segir lækkunina sem varð hér um vorið 2020 hafi sennilega seinkað greiningum hjá hópi fólks en þó hafi kerfið náð að grípa það fyrir lok árs.

Frekari rannsóknir á áhrifum faraldursins á krabbameinsleit á Norðurlöndum eru í bígerð. Ekki liggur fyrir hvort munur hafi verið á greiningum eftir tegundum krabbameina eða þá hvort þetta hafi haft meiri áhrif á ákveðna hópa samfélagsins, svo sem aldraða. Þá verður rannsakað að hversu miklu leyti faraldurinn lagðist á krabbameinsveika samanborið við aðra.